Vilja leyfa heildsölu á kannabis

Kannabisplanta.
Kannabisplanta. AFP

Hollendingar eru skrefi nær því að samþykkja lög sem leyfa ræktun kannabisefna og sölu þeirra til heildsala undir eftirliti ríkisins. Frumvarp þess efnis var samþykkt með naumindum í neðri deild hollenska þingsins á þriðjudaginn. Hins vegar á efri deildin eftir að samþykkja frumvarpið.

Samkvæmt hollenskum lögum er leyfilegt að eiga fimm grömm af kannabis til einkaneyslu og að rækta af fimm kannabisplöntum. Þessi lög voru samþykkt árið 1976. Hins vegar er enn bannað að rækta efnið til að selja heildsölum. Í Hollandi eru starfrækt svokölluð „kaffihús“ sem selja kannabis. Eigendur kaffihúsanna sem eru 600 talsins þurfa að kaupa ólöglega kannabis af glæpamönnum til að anna eftirspurninni en þessi kaffihús eru vinsæl. 

Samþykkt með 77 gegn 72 atkvæðum

Frumvarpið var samþykkt með 77 atkvæðum gegn 72 en 150 þingmenn eru í neðri deildinni. Ekki er talið líklegt að frumvarpið verði samþykkt því meirihluti efri deildar þingmanna er í minnihluta í neðri deildinni, samkvæmt hollenskum miðlum. Þeir benda einnig á að gengið er til forsetakosninga 15. mars næstkomandi og ólíklegt er að afgreiðslu málsins verði lokið fyrir þann tíma. 

Betra fyrir heilsu borgaranna að vita hvaðan það kemur 

Vera Bergkamp, þingmaður D66-flokksins, sagði að fleiri kostir fylgdu því að ríkið setti lög um sölu og ræktun kannabis. Kaffihúsaeigendur gætu þar með keypt á löglegan hátt af tilteknum ræktendum sem tilheyrðu lokuðu kerfi sem ríkið hefði eftirlit með. 

„Það er betra fyrir heilsu borgaranna að vita hvaðan grasið kemur og það verður að uppfylla ákveðna eiginleika,“ sagði Bergkamp. Hún benti einnig á að þetta hjálpi eigendum kaffihúsanna svo þeir þyrftu ekki að eiga viðskipti við glæpamenn. 

Andstæðingar frumvarpsins sögðu þetta brjóta gegn alþjóðlegum lögum og myndi auk þess ýta undir neyslu ungs fólks á vímugjafanum. 

Hollensku kaffihúsin skila milljónum evra árlega. Stór hluti af tekjum kaffihúsanna í Amsterdam er frá erlendum ferðamönnum. 

Ferðamenn við Dam-torg í Amsterdam í Hollandi.
Ferðamenn við Dam-torg í Amsterdam í Hollandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert