11 milljónir eiga á hættu að vera vísað úr landi

AFP

Mikill ótti ríkir meðal ólöglegra innflytjenda í Bandaríkjunum eftir að stjórnvöld kynntu nýjar reglur í gær sem auðvelda þeim að vísa fólki úr landi. Alls eru um 11 milljónir ólöglegra innflytjenda í Bandaríkjunum, flestir frá Mexíkó og öðrum ríkjum Mið-Ameríku. Þetta er í fyrsta skipti í mörg ár sem slíkum innflytjendum stafar alvarleg ógn um að vera vísað úr landi.

Mannréttindasamtök segja nýju reglurnar vera nornaveiðar og vara við því að ef fólki verður rekið úr landi í stórum stíl geti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir fjölskyldur sem eiga sér djúpar rætur í Bandaríkjunum. Eins geti þetta haft alvarlegar afleiðingar fyrir bandarískt efnahagslíf. 

AFP

John Kelly, heima­varn­ar­ráðherra Banda­ríkj­anna, sem kynnti nýju reglurnar segir að þær væru nauðsynlegar til þess að takast á við vandamál sem er að bera ýmsar stofnanir ofurliði. Fjölgun ólöglegra innflytjenda við landamærin í suðri hafi skapað alvarleg vandamál sem hafi áhrif á þjóðaröryggi. 

Ben Cardin, öldungadeildarþingmaður demókrata, varar við því að nýju reglurnar hafi slæm áhrif á þjóðaröryggi og almannaheill. 

Borgarstjórinn í New York, Bill De Blasio, segir að ekki komi til greina að breyta starfi lögreglumanna í borginni í starfsmenn innflytjendaeftirlitsins. Eða fangelsum í geymslustað í þágu brottvísunarstefnu stjórnvalda sem muni aðeins hafa slæm áhrif á innviði borgarinnar sem er öruggasta stórborg Bandaríkjanna. 

 Með nýju reglunum verður einfaldara fyrir landamæraverði og starfsmenn innflytjendaeftirlits að vísa fólki með hraði úr landi sem er með ólöglegum hætti þar. Á þessu er hinsvegar undantekningar, svo sem þegar um börn er að ræða.

Einkum og sér í lagi á þetta við um ólöglega innflytjendur sem hafa gerst sekir um glæpi sem og þá sem hafa verið kærðir eða eiga yfir höfði sér ákæru fyrir saknæmt athæfi.

Umfjöllun NYT 

Umfjöllun BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert