Framdi sjálfsvíg eftir brottvísun frá Bandaríkjunum

Frá landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna.
Frá landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna. AFP

Karlmaður frá Mexíkó framdi sjálfsvíg aðeins hálftíma eftir að hafa verið vísað frá Bandaríkjunum. Hinn 45 ára gamli Guadalupe Olivas Valencia hoppaði fram af brú við landamærin eftir að hafa verið vísað frá Bandaríkjunum í þriðja skiptið.

Hann fannst meðvitundarlaust við hliðina á plastpoka sem var fullur af veraldlegum eigum hans. Olivas lést á spítala skömmu síðar.

Vitni segjast hafa heyrt Olivas kalla að hann vildi ekki snúa aftur til Mexíkó og hann virkaði í talsverðu uppnámi.

Dánarorsökin var hjartaáfall og heilahristingur sem hann fékk þegar hann skall á jörðina. Olivas kom frá Sinaloa í Mexíkó en þar er ofbeldi nánast daglegt brauð.

Margir Mexíkóar segja mikið ofbeldi eina helstu ástæðu þess að þeir flýja heimalandið og leita til Bandaríkjanna.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert