Samþykktur þrátt fyrir höfnun

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands.
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands. AFP

Búist er við að meirihluti þingmanna í neðri deild hollenska þingsins leggi blessun sína yfir samstarfssamning Evrópusambandsins við Úkraínu í atkvæðagreiðslu sem fram fer á morgun en báðar deildir þingsins hafa lýst því yfir að samningurinn verði staðfestur.

Samstarfssamningurinn var undirritaður árið 2014 og hafa öll önnur ríki Evrópusambandsins staðfest hann. Ástæðan er sú að meirihluti hollenskra kjósenda greiddi atkvæði gegn staðfestingu samningsins í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í apríl á síðasta ári.

Ríkisstjórn Hollands brást við niðurstöðu þjóðaratkvæðisins með því að semja við Evrópusambandið um að lagalega bindandi texti fylgi samningnum við Úkraínu þar sem athugasemdum þeirra kjósenda sem lögðust gegn samningnum er komið á framfæri. Hins vegar felur textinn engar efnislegar breytingar á samningnum sjálfum.

Meðal þess sem fram kemur í textanum, sem samþykktur var á fundi leiðtogaráðs Evrópusambandsins í desember, er að samningurinn veiti ekki Úkraínu rétt til inngöngu í smabandið né til fjárhagslegs stuðnings eða hernaðarlegs stuðnings.

Fréttavefurinn Euobserver.com greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert