Skotin í höfuðið vegna aura og iPods

Deserae Turner berst fyrir lífi sínu.
Deserae Turner berst fyrir lífi sínu. Ljósmynd/Skjáskot af vef BBC

Þeir sem skutu táningsstúlku í hnakkann í bandaríska ríkinu Utah á dögunum gerðu það til að komast yfir eigur hennar og sex þúsund krónur í reiðufé, að sögn lögreglunnar.

Deserae Turner, fjórtán ára, fannst nær dauða en lífi í skurði síðastliðinn föstudag. Þá höfðu vinir hennar og fjölskylda leitað að henni í sex klukkustundir í bænum Smithfield.

Tveir sextán ára piltar voru handteknir um helgina og hafa þeir verið ákærðir fyrir morðtilraun.

Annar þeirra er sagður hafa tjáð lögreglunni að ástæðan fyrir glæpnum hafi verið græðgi, að því er BBC greinir frá. 

Að sögn lögreglunnar lokkuðu piltarnir Deserae að skurðinum skammt frá menntaskólanum í Smithfield undir því yfirskyni að ætla að selja henni hníf.

Í rauninni voru þeir þegar búnir að ákveða að drepa hana og taka af henni peningana, iPodinn-hennar og farsíma, samkvæmt því sem kemur fram í ákærunni.

Stúlkan er í dái á sjúkrahúsinu í Salt Lake City og „berst fyrir lífi sínu“, að sögn talsmanns fjölskyldu hennar.

„Við vitum að guð á himninum vakir yfir henni og allir eru djúpt snortnir vegna hennar. Við vitum að hann hlustar og svarar bænum og við sjáum hann að verki þegar Deserae heldur áfram að ná framförum,“ sagði í yfirlýsingu fjölskyldunnar.

„Þetta mál hefur hrist upp í borgurum okkar,“ sagði yfirlögregluþjónninn Travis Allen. „Við höfum aldrei séð neitt þessu líkt áður.“

Hann bætti við að margar af eigum stúlkunnar hafi fundist hjá piltunum tveimur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert