Smygl á fólki stöðvað í Evrópu

AFP

Hópur smyglara hefur verið handtekinn í nokkrum ríkjum Evrópu en um sameiginlegar aðgerðir lögreglu í fjórum ríkum Evrópu og Europol er að ræða. Hópurinn hefur smyglað yfir 100 manns frá Ungverjalandi til Ítalíu á undanförnum árum.

Samkvæmt tilkynningu frá Europol var um sameiginlega aðgerð þýsku, ungversku, ítölsku og slóvensku lögreglunnar að ræða. Smyglararnir eru Pakistanar sem stýrðu glæpastarfseminni frá Ítalíu. Fólkið sem þeir smygluðu er frá Afganistan, Pakistan og Bangladess til Ítalíu og Þýskalands.

Í hverjum leiðangri voru 20-36 flóttamenn sem voru faldir í farmi sendibíla. Ökutækin voru leigð annaðhvort á Ítalíu eða Ungverjalandi undir fölsku flaggi. Mikill viðbúnaður var við smyglið og sáu flóttamennirnir aldrei bílstjórana sem óku bílunum og öfugt. Flóttamennirnir voru sóttir á fáförnum stöðum og bílstjórarnir komu síðar í bifreiðina. 

Þegar þýska lögreglan stöðvaði smyglbíl í Þýskalandi kom í ljós að fingraför sem fundust í bílnum voru samsvarandi fingraförum manns sem var í haldi lögreglu í Slóveníu vegna gruns um smygl á fólki. Talið er að hann sé höfuðpaur smyglhringsins og hefur hann verið framseldur til Ungverjalands þar sem hann verður ákærður. Tveir til viðbótar hafa verið ákærðir í Ungverjalandi en aðrir liðsmenn hafa verið ákærðir á Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert