Talinn gagnast fátækari ríkjum mest

Roberto Azevedo, framkvæmdastjóri WTO.
Roberto Azevedo, framkvæmdastjóri WTO. AFP

Fyrsti milliríkjasamningurinn á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) tók gildi í dag en um er að ræða samning sem snýr að því að einfalda ferla við tollskoðun á landamærum og er búist við að hann auðveldi vöruviðskipti í heiminum.

Fram kemur í frétt AFP að samtals hafi 112 aðildarríki WTO samþykkt samninginn, sem nefnist Trade Facilitation Agreement (TFA), sem uppfylli skilyrði stofnunarinnar um að samþykki 2/3 ríkjanna þurfi til þess að samningur á vegum þess taki gildi. Samtals eru aðildarríkin 164.

Haft er eftir Roberto Azevedo, framkvæmdastjóra WTO, að reiknað sé með að samningurinn leiði til 14% minni kostnaðar í alþjóðlegum viðskiptum og að hann gæti aukið hagvöxt í heiminum um hálft prósentustig á ári. Viðræðum um samninginn lauk árið 2013.

Talið er að fátækari ríki hagnist mest á samningnum en hann mun auðvelda þeim að selja framleiðslu sína á markaði auðugari ríkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert