„Við gegn þeim

AFP

Stjórnmálamenn beita nú æ oftar hugmyndafræði um „við gegn þeim“. Þessi orðræða stjórnmálamanna í heiminum hefur aukið bilið milli landa og gert heiminn hættulegri segir í ársskýrslu Amnesty International, en samtökin gáfu í dag út árlegt yfirlit sitt yfir stöðu mannréttinda í heiminum.

Ársskýrslan, sem ber heitið The State of the World’s Human Rights, er yfirlit yfir ástand mannréttinda í heiminum. Hún tekur til 159 landa. Í skýrslunni er varað við afleiðingum orðræðu sem einkennist af „við gegn þeim“ en slík orðræða er áberandi í stjórnmálaumræðu Evrópu, Bandaríkjanna og víðar. Samtökin telja að slík orðræða sé vatn á myllu þeirra sem vilja draga úr vægi mannréttinda í heiminum og veikja alþjóðleg viðbrögð við stórfelldum grimmdarverkum.

Eitruð ummæli á atkvæðaveiðum

„Á árinu 2016 sáum við óskammfeilna notkun á hugmyndinni „við gegn þeim“ og margvíslegar ásakanir, hatur og ótta sem henni fylgja í meira mæli en hefur verið frá því á fjórða áratug síðustu aldar. Of margir stjórnmálamenn reyna að svara eðlilegum spurningum tengdum efnahag og öryggi með aðgreiningarstjórnmálum, sem eru eitruð og ala á sundrungu. Þetta gera þeir í von um að afla sér atkvæða,“ segir Salil Shetty aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.

„Óttastjórnmál eru orðin hættulegt afl í alþjóðastjórnmálum. Hvort sem í hlut eiga Trump, Orban, Erdoğan eða Duterte ryðja æ fleiri stjórnmálamenn sér til rúms í nafni baráttu gegn kerfinu með eitraða stefnuskrá að vopni þar sem stórir hópar fólks eru gerðir að blórabögglum og mennska þeirra vanvirt.

Ýmsir stjórnmálamenn samtímans halda þeirri hættulegu hugmynd blygðunarlaust fram að sumt fólk sé minni mannverur en annað. Ef sú hugmynd nær brautargengi er hætta á að leyst verði úr læðingi ýmis myrkustu öfl manneðlisins,“ segir meðal annars í fréttatilkynningu.

36 ríki brutu gegn alþjóðalögum

Í tilkynningu kemur fram að ríkisstjórnir snerust einnig gegn flótta- og farandfólki. Í ársskýrslu Amnesty International er því lýst hvernig 36 ríki brutu gegn alþjóðalögum með því að senda flóttafólk með ólögmætum hætti aftur til landa þar sem réttindi þeirra eru í hættu.

Nýverið sýndi Trump Bandaríkjaforseti að honum var alvara með hótanir sínar í aðdraganda kosninga þegar hann skrifaði undir forsetatilskipun sem hefur að markmiði að varna flóttafólki frá ýmsum stríðshrjáðum ríkjum þess að leita hælis í Bandaríkjunum.

„Meðferð ástralskra stjórnvalda á flóttafólki var hræðileg en þau hafa sent flóttafólk til eyjanna Nauru og Manus. ESB gerði óábyrgan og ólöglegan samning við Tyrkland um að senda flóttafólk aftur þangað, jafnvel þó að slíkt sé ekki öruggt og Mexíkó og Bandaríkin halda áfram að senda fólk úr landi sem flýr gegndarlaust ofbeldi í Mið-Ameríku.

Kína, Egyptaland, Eþíópía, Indland, Íran, Taíland og Tyrkland stóðu fyrir umfangsmikilli valdbeitingu á ýmsum sviðum. Önnur ríki réðust í íþyngjandi öryggisráðstafanir, eins og sjá mátti í framlengingu á neyðarlögum í Frakklandi og fordæmalausri og skelfilegri eftirlitslöggjöf í Bretlandi. Enn ein birtingarmynd þessarar stjórnmálaþróunar, þar sem „sterkir“ leiðtogar koma fram á sjónarsviðið, er í orðræðu sem andsnúin er femínisma og réttindum lgbti-fólks. Dæmi um slíkt má finna í Póllandi og viðleitni þar til að draga úr réttindum kvenna. Þeirri viðleitni var svarað með fjöldamótmælum,“ segir ennfremur í tilkynningu.

„Í stað þess að berjast fyrir réttindum fólks hafa of margir leiðtogar sett á oddinn stefnumál sem draga úr mannvirðingu. Þetta gera þeir í pólitísku skyni. Margir vinna gegn réttindum hópa, sem gerðir eru að blórabögglum, stundum til að beina kastljósinu frá eigin mistökum við að vernda og tryggja efnahagsleg og félagsleg réttindi,“ segir Salil Shetty.

 „Árið 2016 urðu þessi eitruðu form mannfyrirlitningar ráðandi afl í alþjóðastjórnmálum. Mörk hins ásættanlega eru orðin önnur en þau voru. Stjórnmálamenn hafa blygðunarlaust réttlætt alls kyns hatursfulla orðræðu og stefnu sem beinist gegn ýmsu í fari fólks, hvort sem slíkt birtist í rasisma, andúð á samkynhneigðum eða á annan hátt.

Fyrsta skotmarkið hefur verið flóttafólk og ef slíkt heldur áfram árið 2017 munu skotmörkin verða fleiri. Slíkt mun leiða til fleiri árása á grundvelli uppruna, þjóðernis, kyns og trúarskoðana. Ef við hættum að sjá hvert annað sem manneskjur með sömu réttindi stefnum við hraðbyri að hengiflugi,“ segir Salil Shetty.

 Skýrsla Amnesty í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert