Vilja ræða við sendiráðsstarfsmann

Malasíska lögreglan leitar stjórnarerindreka frá Norður-Kóreu í tengslum við morðið á hálfbróður Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu. Lögreglan vill ræða við viðkomandi en um er að ræða háttsettan starfsmann sendiráðs landsins í Kuala Lumpur. Þetta kom fram í máli ríkislögreglustjóra Malasíu, Khalid Abu Bakar, í dag.

Lögreglan leitar alls fimm manns frá Norður-Kóreu í tengslum við morðið á Kim Jong-Nam á alþjóðaflugvellinum í Kuala Lumpur. Eins vill lögreglan ræða við þrjá í viðbót vegna málsins án þess að viðkomandi séu taldir hafa komið nærri morðinu. Meðal þeirra er embættismaðurinn úr sendiráði Norður-Kóreu og starfsmaður flugfélags Norður-Kóreu.

Khalid segir að lögreglan hafi skrifað sendiherranum bréf þar sem óskað er eftir heimild til þess að ræða við mennina. Vonast sé til þess að sendiráðið sé samvinnufúst því ef ekki verður að þvinga þá til þess að gefa sig fram við lögreglu.

Khalid segir að lögregla telji að fimmmenningarnir hafi átt aðild að morðinu en fjórir þeirra flúðu land sama dag og Jong-Nam var myrtur á flugvellinum. Eitt þeirra er í haldi lögreglu í Malasíu.

Lögregla telur að konurnar tvær sem einnig voru handteknar fljótlega eftir morðið hafi vitað að þær væru að taka þátt í að eitra fyrir Jong-Nam þrátt fyrir að þær segist hafa haldið að um hrekk væri að ræða. 

„Auðvitað vissu þær,“ sagði Khalid þegar hann var spurður af fréttamönnum í morgun hvort konurnar hafi vitað að þær væru með eitur í fórum sínum þegar þær nálguðust Jong-Nam.

„Þið hafið séð myndskeiðið er það ekki? Konan færði sig í átt að baðherberginu með hendurnar fyrir framan sig. Hún vissi vel að þetta var eitur og að hún þyrfti að þvo sér um hendurnar,“ bætti Khalid við.

Hann segir að Doan Thi Huong, 28 kona frá Víetnam, og Siti Aishah, 25 ára frá Indónesíu, hafi verið þjálfaðar í að strjúka yfir andlit mannsins og að þær hafi æft þetta fyrir árásina í Kuala Lumpur. Áður hafði indónesíska lögreglan haldið því fram að Siti Aishah hafi verið göbbuð til þátttöku undir því yfirskyni að um væri að ræða sjónvarpsþátt með falinni myndavél.

Ríkislögreglustjóri Malasíu, Khalid Abu Bakar, á fundi með blaðamönnum.
Ríkislögreglustjóri Malasíu, Khalid Abu Bakar, á fundi með blaðamönnum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert