Áreitti 100 ára gamlan vistmann

Wikipedia

Starfsmaður á hjúkrunarheimili í Bretlandi hefur verið ákærður fyrir að hafa dansað með kynferðislega ögrandi hætti fyrir framan 100 ára gamlan vistmann. Athæfið var tekið upp á myndband af öðrum starfsmanni sem síðan sýndi það yfirmanni heimilisins.

Starfsmaðurinn, Brittany Fultz sem er 26 ára gömul, hefur haldið því fram að um grín hafi verið að ræða samkvæmt frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph en ætlunin hafi verið að koma vistmanninum í gott skap. Atvikið átti sér stað í desember.

Fultz er ákærð fyrir kynferðislega áreitni en lögreglan segir að hún hafi í dansinum berað á sér brjóstin og rassinn. Hún hafi bæði dansað fyrir framan vistmanninn og sest ofan á hann.

Maðurinn þjáist af heilabilun en lögmaður Fultz segir að hann hefði getað sagt henni að hætta en ekki gert það. „Maðurinn vissi nákvæmlega hvað væri í gangi en hafði alls ekkert að athuga við það,“ er haft eftir lögmanninum Geoffrey Oglesby.

Hinn starfsmaðurinn, sem myndaði athæfið, hefur ekki verið ákærður. Yfirmaður Fultz tilkynnti málið til lögreglu fyrr í þessum mánuði. Fultz var sagt upp störfum og hinn starfsmaðurinn hefur einnig hætt störfum á hjúkrunarheimilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert