Hvernig tengist Huong morðinu?

AFP

Fjölskylda víetnömsku konunnar sem var handtekin í tengslum við morðið á hálfbróður leiðtoga Norður-Kóreu á flugvellinum í Kuala Lumpur er í áfalli vegna málsins og trúir því ekki að hún tengist því á nokkurn hátt. Hún sé stúlka úr fátæku þorpi þar sem íbúarnir hafa lífsviðurværi sitt af hrísgrjónarækt. 

Doan Thi Huong, sem er 28 ára gömul, komst í fréttirnar eftir að malasíska lögreglan birti myndir af henni úr öryggismyndavélum alþjóðaflugvallarins í Kuala Lumpur skömmu eftir morðið á Kim Jong-Nam 13. febrúar.

Doan Thi Huong.
Doan Thi Huong. AFP

Hún var handtekin ásamt indónesískri konu en þær eru sakaðar um að hafa sprautað eitri í andlit Kim sem var á leið til Macau þar sem hann bjó.

Velta ýmsir íbúar Quan Phuong því fyrir sér hvað hafi orðið til þess að stúlka sem vakti mikla athygli í heimabyggð fyrir klæðaburð og aflitað hár tók þátt í samsæri sem minnir helst á kaldastríðstíma þegar njósnarar og samsæri voru á hvers manns vörum. 

Stjúpmóðir hennar, Nguyen Thi Vy, segir fjölskylduna ekki hafa trúað því að þetta gæti verið Huong fyrr en þau sáu myndina af henni. Hún segist ekki trúað því að Huong hafi tekið þátt í tilræðinu af fúsum og frjálsum vilja en Huong yfirgaf heimahagana átján ára gömul til þess að fara í nám. 

Ríkislögreglustjóri Malasíu hefur hins vegar hafnað því að Huong og indónesíska konan hafi verið hafðar að ginningarfífli. Myndir úr öryggismyndavélum sýni það og sanni.

Þegar Doan Thi Huong kom heim í frí í kringum Tet nýárshátíðina í lok janúar benti ekkert til þess að hún væri flækt inn í saknæmt athæfi. Hún hafi verið staurblönk og ekki einu sinni átt fyrir rútumiðanum. 

Frá þorpinu sem Doan Thi Huong ólst upp í.
Frá þorpinu sem Doan Thi Huong ólst upp í. AFP

Nágranni fjölskyldunnar, Maria Nguyen, segir að Huong hafi alltaf verið sér á báti í litla þorpinu. „Hún fylgdi alltaf tískustraumum og var með litað hár,“ segir hú. Á hverri Tet hátíð kom hún heim en fylgdarsveinninn var nýr á hverju ári og alltaf útlendur.

Yfirvöld í Norður-Kóreu segja að Malasía beri ábyrgð á dauða manns frá Norður-Kóreu en þess er gætt að nefna ekki Kim Jong-nam á nafni. Segja yfirvöld þar að malasísk yfirvöld séu að gera morðið að pólitísku deilumáli. Þetta er í fyrsta skipti sem yfirvöld í Norður-Kóreu tjá sig um dauða hálfbróður leiðtoga landsins. Lík hans er enn í Malasíu en yfirvöld í N-Kóreu hafa farið fram á að það verði sent til N-Kóreu.

Ríkislögreglustjóri Malasíu segir að ekki sé hægt að þvinga ríkiserindreka N-Kóreu til þess að svara spurningum þeirra en meðal þeirra sem lögreglan hefur óskað eftir að ræða við er háttsettur embættismaður í sendiráði N-Kóreu í Kuala Lumpur, Hyon Kwang Song. Alls grunar lögreglu að átta N-Kóreumenn tengist morðinu.

Khalid Abu Bakar ríkislögreglustjóri segir að sjálfsögðu verði reglur um friðhelgi virtar og að lögreglan geti ekki farið inn í sendiráðið til þess að ræða við hann. En ef hann hafi ekkert að fela þá sé óþarfi fyrir hann að vera ósamvinnuþýður.

Muhammad Farid Bin Jalaluddin, Doan Thi Huong, Ri Jong Chol …
Muhammad Farid Bin Jalaluddin, Doan Thi Huong, Ri Jong Chol og Siti Aisyah. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert