Mágur konungs fær að ganga laus

Inaki Urdangarin sést hér mæta í dómssalinn í Palma í …
Inaki Urdangarin sést hér mæta í dómssalinn í Palma í dag. AFP

Mági Filippusar Spánarkonungs, sem var dæmdur í sex ára og þriggja mánaða fangelsi fyrir að hafa dregið sér fé úr sjóðum sem hann stýrði, verður ekki gert að hefja afplánun fyrr en niðurstaða áfrýjunardómstóls liggur fyrir.

Inaki Urdangarin, sem er kvæntur Cristinu Spánarprinsessu, hefur áfrýjað dómnum sem féll í síðustu viku í borginni Palma á eyjunni Mallorka. Saksóknari óskaði eftir því í dag að Urdangarin fengi að ganga laus gegn því að greiða 200 þúsund evrur í tryggingarfé fram yfir dómsuppkvaðningu áfrýjunardómstólsins. Samkvæmt spænskum lögum getur dómari ekki hafnað slíkri beiðni en niðurstaða dómarans var sú að hann þyrfti ekki að greiða tryggingu heldur fengi hann að ganga laus fram yfir dómsuppkvaðningu.

Urdangarin er fyrr­ver­andi hand­boltamaður og stát­ar meðal ann­ars af ólymp­íu­titli með spænska landsliðinu. Hjónin hafa verið búsett í Genf frá árinu 2013 ásamt börnum sínum. 

Hann var dæmdur fyrir að hafa dregið milljónir evra úr sjóðum stofnunar sem hann stýrði á Mallorka 2004-2006. Hann var jafnframt dæmdur til þess að greiða 512 þúsund evrur í sekt. 

Fjársvikamálið vakti mikla athygli en Cristina var einnig ákærð í málinu en sýknuð. Hún er fyrsta konungborna manneskjan á Spáni sem er ákærð fyrir saknæmt athæfi frá því konungdæmið var endurvakið. Rannsókn málsins hófst árið 2011 þegar fjármálakreppan stóð sem hæst á Spáni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert