Trump ógildir tilmæli um transfólk

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Hvíta húsið hefur tekið úr gildi sérstök tilmæli, sem sett voru af hálfu forsetaembættisins í tíð Baracks Obama, um að almenningsskólum væri skylt að leyfa trans-nemendum sínum að nota salerni og búningsklefa í samræmi við það kyn sem þeir kenna sig við.

Tilkynning þessa efnis var gefin út í gærkvöldi.

Með þessari breytingu hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem gaf til kynna í kosningabaráttu sinni að hann gæti jafnvel varið réttindi LGBT-fólks, stillt sér upp við hlið íhaldssamra repúblikana.

Eftir að tilmæli ríkisstjórnar Obama hafa verið felld úr gildi geta einstök ríki og skólasvæði sett eigin reglur um hvort nemendur fái aðgengi að salernum sem endurspegla ekki þeirra líffræðilega kyn.

Heyrst hafði þó af ágreiningi innan ríkisstjórnar Trumps um breytingarnar á milli dómsmálaráðherrans Jeff Sessions, sem barist hefur hart gegn réttindum LGBT-fólks, og menntamálaráðherrans Betsy DeVos, sem sögð er styðja réttindabaráttu þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert