Vilja ná flugvellinum í dag

Írakskar hersveitir, með stuðningi orrustuþotna, -þyrlna og vélfygla, réðust í morgun til atlögu við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams á flugvelli Mosúl-borgar. Árásin er lykilhluti nýrrar sóknar gegn samtökunum, sem halda áfram að verja þetta höfuðvígi sitt.

Fylking þjóða, undir forystu Bandaríkjamanna, hefur stutt vel við íröksku hersveitirnar með loftárásum og ýmiss konar hernaðarráðgjöf. Hermenn Bandaríkjanna taka einnig þátt í árásinni á flugvöllinn á jörðu niðri.

„Við munum ná honum í dag, með vilja Guðs,“ segir fylkisforinginn Abbas al-Juburi í samtali við blaðamann AFP, aðeins kílómetra frá flugvellinum.

Þúsundir hermanna hófu á sunnudag mikla sókn gegn hryðjuverkasamtökunum og er markmiðið að endurheimta Mosúl úr greipum þeirra. Borgin er sú önnur stærsta í landinu og síðasta vígi íslamistanna í Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert