Trump vill efla kjarnorkuvopnabúrið

Donald Trump á fundi í Hvíta húsinu í gærdag.
Donald Trump á fundi í Hvíta húsinu í gærdag. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist vilja að Bandaríkin efli kjarnorkuvopnabúr sitt. Segir hann að það væri „stórkostlegt“ ef ekkert ríki byggi yfir kjarnorkuvopnum, en ellegar þyrftu Bandaríkin að vera í broddi fylkingar hvað þetta varðar.

Í samtali við fréttastofu Reuters segir hann að Bandaríkin hafi dregist aftur úr í getu til beitingar kjarnorkuvopna.

Gagnrýnendur hafa sagt að Bandaríkin og Rússland búi þegar yfir meira en nógum kjarnorkuvopnum til að aftra kjarnorkustyrjöld.

Bandaríkin búa yfir 6.800 kjarnaoddum og Rússland litlu meira, eða 7.000 talsins, samkvæmt sjálfstæðum eftirlitssamtökum innan Bandaríkjanna, Arms Control Association.

Trump fór um víðan völl í viðtalinu, en sagði meðal annars: „Ég er sá fyrsti sem myndi vilja sjá alla - enga hafa kjarnorkuvopn, en við munum aldrei dragast aftur úr öðru ríki, jafnvel þó það sé vinveitt okkur, við munum aldrei dragast aftur úr í kjarnorku.“

Ummælin enduróma skilaboð sem hann sendi frá sér í tísti nokkrum vikum eftir kosningasigur sinn, þar sem hann hét því að efla getu Bandaríkjanna í þessum efnum.

Trump ásamt ráðgjafa sínum og tengdasyni, Jared Kushner.
Trump ásamt ráðgjafa sínum og tengdasyni, Jared Kushner. AFP

Lítill skilningur á hættu kjarnorkuvopna

Nýr samningur á milli Bandaríkjanna og Rússlands, sem þekktur er undir heitinu „New Start“, eða „Nýtt upphaf“, felur í sér að fyrir 5. febrúar á næsta ári þurfi ríkin að minnka kjarnorkuvopnabúr sín þangað til þau standi á jöfnu, næstu tíu árin.

Eftirlitssamtökin sem áður var getið hafa gagnrýnt ummæli Trumps.

„Ummæli hans gefa til kynna, enn einu sinni, að hann er illa upplýstur um kjarnorkuvopn og hefur lítinn skilning á þeirri einstöku hættu sem í þeim felst,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

„Saga Kalda stríðsins sýnir okkur að á endanum getur enginn verið í „broddi fylkingar“, þegar teflt er á tæpasta vað í vopnakapphlaupi.“

Umfjöllun BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert