Greiðsla fyrir grikk

Siti Aisyah.
Siti Aisyah. AFP

Indónesísk kona, sem var handtekin grunuð um að hafa myrt hálfbróður einræðisherra Norður-Kóreu, segist hafa fengið 400 malasísk ringgit, sem samsvarar tæpum 10.000 kr., fyrir að gera honum grikk.

Starfsmenn sendiráðs Indónesíu hittu konuna, Siti Aisyah, í Kúala Lúmpúr, höfuðborg Malasíu. Frá þessu er greint á vef BBC.

Hún segist hafa fengið fjárhæðina greidda í reiðufé, en hún átti að klína barnaolíu framan í Kim Jong-nam. Átti þetta að vera hluti af gríni í raunveruleikaþætti. 

Kim Jong-nam og Kim Jong-un.
Kim Jong-nam og Kim Jong-un. AFP

Rannsóknir hafa sýnt fram á, að hálfbróðir Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, hafi verið myrtur með eiturefninu VX sem Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint sem gereyðingarvopn og er öflugasta taugaeitur sem vitað er með vissu að hafi verið framleitt. Kim Jong-nam lést í síðust viku.

Stjórnvöld í Malasíu og Suður-Kóreu saka einræðisstjórnina í Norður-Kóreu um að hafa fyrirskipað morðið, en hún neitar því og mjög ólíklegt er að nokkurn tíma verði hægt að fullsanna ásökunina, að sögn fréttaskýranda breska ríkisútvarpsins.

Líklegt er að með því að nota svo öflugt eiturefni vilji einræðisstjórnin senda óvinum sínum „sterk skilaboð og viðvörun“, að mati Melissu Hanham, sérfræðings í afvopnunarmálum og málefnum Austur-Asíu við rannsóknastofnunina Middlebury Institute of International Studies í Monterey í Kaliforníu. Líklegt er að drápið skjóti norðurkóreskum andstæðingum einræðisherrans skelk í bringu, jafnt þeim sem hafa flúið heimaland sitt og þeim sem vilja flýja þaðan undan ógnarstjórninni.

Fjórir menn eru í haldi vegna rannsóknar málsins, þeirra á …
Fjórir menn eru í haldi vegna rannsóknar málsins, þeirra á meðal Norður-Kóreumaður og tvær konur; önnur frá Indónesíu og hin frá Víetnam. AFP

VX er öflugasta taugaeitur sem vitað er um og komist lítill dropi af því á húð manns kemst það auðveldlega inn í líkamann og getur valdið dauða innan nokkurra mínútna. Það er á meðal eiturefna sem eru bönnuð samkvæmt alþjóðlegum sáttmála, CWC, um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra. Norður-Kórea er á meðal sex ríkja sem hafa ekki undirritað sáttmálann, að sögn fréttaskýranda BBC. 

Aðeins Bandaríkin og Rússland hafa viðurkennt að þau hafi framleitt VX og hafa skuldbundið sig til að eyða eiturbirgðum sínum. Talið er að fleiri lönd hafi orðið sér úti um eiturefnið. Sérfræðingar í afvopnunarmálum segja að Norður-Kórea eigi þriðju mestu VX-birgðirnar í heiminum, á eftir Bandaríkjunum og Rússlandi. Varnarmálaráðuneytið í Suður-Kóreu sagði í skýrslu árið 2014 að talið væri að einræðisstjórnin í Pjongjang ætti 2.500 til 5.000 tonn af VX og öðrum eiturefnum til hernaðar. Hermt er að nokkrar stofnanir í Norður-Kóreu geti skipulagt árásir með VX, þeirra á meðal öryggisstofnun sem gegnir því hlutverki að vernda Kim Jong-un og samstarfsmenn hans.

Kim Jong-un einræðisherra.
Kim Jong-un einræðisherra. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert