Svíar kannast ekki við „sérfræðinginn“

Donald Trump.
Donald Trump. /AFP

Yfirvöld í Svíþjóð segjast ekkert kannast við Nils Bildt, sem var í viðtali hjá Fox News sem „sænskur ráðgjafi öryggis- og varnarmála“. Þá hefur einnig komið á daginn að Bildt hefur komist í kast við lögin og á sér afbrotasögu í Bandaríkjunum.

Hvorki utanríkisráðuneytið né varnarmálaráðuneytið í Svíþjóð hafa heyrt Bildt getið en hann flutti frá Svíþjóð árið 1994 að því er fram kemur í sænska dagblaðinu Dagens Nyheter. The Local greinir frá.

„Við höfum engan talsmann á okkar snærum með þessu nafni,“ sagði Marie Pisäter frá sænska varnarmálaráðuneytinu í samtali við blaðið. Þá hefur utanríkisráðuneytið einnig greint frá því að Bildt hafi engin tengsl við ráðuneytið.

Dæmdur ofbeldismaður

Bildt var í viðtali við Bill O’Reilly, einn þekktasta þáttarstjórnanda fréttastöðvarinnar Fox, á fimmtudaginn. Í þættinum var Svíþjóð lýst sem landi sem glímir við glæpaplágu, þá sérstaklega nauðganir. Einnig kom fram í þættinum að glæpatíðni fari hækkandi í landinu auk þess sem það var bendlað við fjölda innflytjenda.

Bildt yfirgaf Svíþjóð sem fyrr segir árið 1994 og breytti hann nafni sínu árið 2003 að því er fréttaveitan TT greinir frá. Þá er „öryggismálaráðgjafinn“ svokallaði sagður eiga nokkur öryggisfyrirtæki í Bandaríkjunum. Sjálfur hefur Bildt hlotið dóm fyrir ofbeldisbrot í Bandaríkjunum en árið 2014 hlaut hann eins árs fangelsisdóm, að því er Dagens Nyheter heldur fram og styðst dagblaðið þar við gögn frá dómstólum í Virginíu í Bandaríkjunum.

„Ég elska Svíþjóð“  

Í bréfi til fjölmiðlanna Metro og Dagens Nyheter segir Bildt að þessi titill sem honum var gefinn í viðtalinu, og hljómar eins og um opinberan fulltrúa sé að ræða, sé ekki frá honum kominn.

„Ég kom fram í þætti Bill O’Reilly á Fox News. Ég stýrði því ekki með nokkrum hætti hvaða titill mér var gefinn, það var ákveðið af ritstjórum Fox News. Ég er sjálfstætt starfandi sérfræðingur með aðsetur í Bandaríkjunum,“ skrifaði Bildt.

Á fjöldafundi í Washington á föstudag hélt Donald Trump Bandaríkjaforseti áfram að lýsa Svíþjóð sem landi þar sem órói ríki, án þess að gera frekari grein fyrir því hvað hann hafi fyrir sér í því. „Sjáið bara hvað hefur gerst í Svíþjóð. Ég elska Svíþjóð. Frábært land. Frábært fólk. Ég elska Svíþjóð. En þeir skilja, sjáiði til, fólkið þar það skilur,“ sagði Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert