Ætluðu að vísa sagnfræðingi úr landi

AFP

Bandarískir tollverðir héldu frönskum sagnfræðingi í 10 klukkustundir á alþjóðaflugvellinum í Houston í Texas og hótuðu að vísa honum úr landi. Sagnfræðingurinn, Henry Rousso, var kominn til borgarinnar til að sækja þar ráðstefnu. 

Talsmenn Texas A&M University segja að það hafi átt að senda Rousso aftur til Frakklands, en litið hafi verið á hann sem ólöglegan innflytjanda. Þetta hafi verið vegna misskilnings með vegabréfsáritun, að því er segir í frétt á vef BBC.

Forsvarsmenn háskólans náðu hins vegar að koma í veg fyrir brottvísunina með aðstoð lagaprófessors. 

„Ég hef verið í haldi í 10 klukkustundir á alþjóðaflugvellinum í Houston og mér verður brátt vísað úr landi,“ staðfesti Rousso í færslu á Twitter í gær. Hann bætti við að lögreglumaðurinn sem stöðvaði hann hefði verið reynslulítill.

Rousso, sem er af gyðingaættum og fæddur í Egyptalandi, er sérfræðingur í sögu franska hersins á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. 

Atvikið átti sér stað á miðvikudag. 

Lagaprófessorinn Fatma Marouf, sem er sérfræðingur í réttindum flóttafólks, aðstoðaði við lausn málsins. Hún segir að tollverðirnir hafi sýnt af sér óviðunandi hegðun og gengið of langt.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lagt mikla áherslu á að herða allt eftirlit við landamæri Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert