Lést kvalafullum dauða á 15-20 mínútum

Kim Jong-nam, hálfbróðir einræðisherra Norður-Kóreu, lést kvalafullum dauða á 15-20 mínútum eftir að á hann var skvett talsverðu magni af eiturefninu VX. Þetta hefur BBC eftir Subramaniam Sathasivam, heilbrigðisráðherra Malasíu.

Stjórnvöld í Malasíu og Suður-Kóreu hafa sakað einræðisstjórnina í Norður-Kóreu um að hafa fyrirskipað morðið, en stjórnin þvertekur fyrir að bera ábyrgð á dauða Kim Jong-nam. Ekkert mótefni hefði virkað að sögn Sathasivam.

Frétt mbl.is: Greiðsla fyrir grikk

Kim Jong-nam lést fyrir tveimur vikum eftir að tvær konur veittust að honum í innritunarálmu alþjóðaflugvallarins í Kuala Lumpur, höfuðborg Malasíu, en konurnar segjast hafa verið að gera honum grikk fyrir sjónvarpsþátt.

Eiturefnið VX, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint sem gereyðingarvopn, er öflugasta taugaeitur sem vitað er með vissu að hafi verið framleitt. Berist einn dropi af efninu á húð getur það drepið á aðeins fáeinum mínútum.

Flugvöllurinn í Kuala Lumpur var rýmdur og hreinsaður vel áður …
Flugvöllurinn í Kuala Lumpur var rýmdur og hreinsaður vel áður en hægt var að opna hann aftur. /AFP


Siti Aisyah, 25 ára gömul kona frá Indónesíu og önnur kvennanna sem grunuð er um verknaðinn, segist hafa fengið greidd 400 malasísk ringgit, sem sam­svar­ar tæp­um 10.000 kr., fyrir að skvetta „barnaolíu“ í andlit Kim Jong-nam í gríni fyrir raunveruleikaþátt. Þá hefur hin konan, hin víetnamska Doan Thi Huong, einnig sagst hafa verið að taka þátt í hrekk fyrir sjónvarpsþátt.

Tveir aðrir hafa einnig verið handteknir í tengslum við málið og minnst sjö aðrir liggja undir grun sem lögregla óskar eftir að ná af tali. Þeirra á meðal Hyon Kwang Song, hátt settur embættismaður í norðurkóreska sendiráðinu í Kuala Lumpur.

Telja árástamennina hafa verið þjálfaða

Lögregluyfirvöld telja árásarmennina hafa verið þjálfaða til að þrífa hendur sínar strax eftir að látið var til skarar skríða. Einhverjir sérfræðingar hafa varpað því fram að hugsanlega hafi konurnar hvor um sig skvett tveimur ólíkum óbanvænum efnablöndum VX á Kim en þegar efnin blönduðust á andliti hans hafi það orðið banvænt.

Aðeins Bandaríkin og Rússland hafa viðurkennt að þau hafi framleitt VX og hafa skuldbundið sig til að eyða eiturbirgðum sínum. Talið er að fleiri lönd hafi orðið sér úti um eiturefnið. Sérfræðingar í afvopnunarmálum segja að Norður-Kórea eigi þriðju mestu VX-birgðirnar í heiminum, á eftir Bandaríkjunum og Rússlandi. Efnið hefur verið á bannlista frá árinu 1993.

Varnarmálaráðuneytið í Suður-Kóreu sagði í skýrslu árið 2014 að talið væri að einræðisstjórnin í Pjongjang ætti 2.500 til 5.000 tonn af VX og öðrum eiturefnum til hernaðar. Hermt er að nokkrar stofnanir í Norður-Kóreu geti skipulagt árásir með VX, þeirra á meðal öryggisstofnun sem gegnir því hlutverki að vernda Kim Jong-un og samstarfsmenn hans.

Einn helsti gangrýnandi einræðisstjórnarinnar

Kim Jong-nam hafði ferðast um á vegabréfi undir nafninu Kim Chol en norðurkóresk yfirvöld eiga enn eftir að staðfesta að hinn myrti sé raunverulega Kim Jong-nam.

Í mörg ár var því haldið fram að til stæði að Kim Jong-nam tæki við af föður sínum sem næsti leiðtogi Norður-Kóreu. Dalaði sá grunur þegar hann var staðinn að því að laumast inn fyrir landamæri Japans á fölsku vegabréfi.

Síðar varð hann einn helsti gagnrýnandi einræðisstjórnar hálfbróður síns í Norður-Kóreu og hann hefur opinberlega sett spurningarmerki við stjórnarhætti í landinu.

Frétt BBC

Alls eru nú fjórir í haldi, grunaðir um tengsl við …
Alls eru nú fjórir í haldi, grunaðir um tengsl við morðið á Kim Jong-nam. /AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert