Fengu ekki að mæta á Óskarinn

Heimildarmyndin um störf björgunarsveitarinnar Hvítu hjálmarnir (The White Helmets) hlaut Óskarsverðlaunin í nótt en þeir Sýrlendingar sem komu að gerð myndarinnar fengu ekki að koma til Bandaríkjanna og taka við verðlaununum.

Myndin fór með sigur af hólmi í keppni stuttra heimildarmynda en hún fjallar um störf sveitarinnar í stríðshrjáðu landi. Leikstjóri The White Helmets er Orlando von Einsiedel en Netflix framleiddi myndina.

Þau tóku við verðlaunum á Óskarverðlaunahátíðinni í nótt. Orlando von …
Þau tóku við verðlaunum á Óskarverðlaunahátíðinni í nótt. Orlando von Einsiedel og Joanna Natasegara. AFP

Nokkrir liðsmenn Hvítu hjálmanna, þar á meðal Khaled Khatib sem tók um stóran hluta myndarinnar, fengu ekki að koma til Bandaríkjanna og vera viðstaddir Óskarsverðlaunahátíðina eins og til stóð. 

Þeir segja á Twitter að þrátt fyrir þriggja daga bið á flugvellinum hafi þeir ekki fengið heimild til þess að fara um borð í flugvél til Bandaríkjanna. Samkvæmt upplýsingum frá landamæraeftirliti Bandaríkjanna voru þeir ekki með gild ferðagögn en um miðjan febrúar höfðu þeir fengið vegabréfsáritun til Bandaríkjanna. 

Hvítu hjálmarnir starfa á stríðshrjáðum svæðum í heimalandinu - Sýrlandi.
Hvítu hjálmarnir starfa á stríðshrjáðum svæðum í heimalandinu - Sýrlandi. AFP

Raed Saleh, leiðtogi Hvítu hjálmanna, fékk ekki heimild til þess að fara um borð en í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér kemur fram að björgunarsveitin hafi bjargað um 82 þúsundum mannslífa frá því stríðið í Sýrlandi braust út fyrir tæpum sex árum.

Leikstjóri myndarinnar, Orlando von Einsiedel, las upp yfirlýsingu Saleh við afhendingu verðlaunanna í nótt. Þar kom meðal annars fram að hann biðji alla þá sem á hlýða að taka þátt í því að stöðva blóðbaðið í Sýrlandi. Ef heimsbyggðin sameinast um að sýna að henni stendur ekki á sama um Sýrland þá mun stríðinu fljótt ljúka.

AFP

Khatib segir á Twitter að á sama tíma og fólk fylgist með Óskarsverðlaunahátíðinni sé stjórnarherinn að gera eiturefnaárás á íbúa Harasta. 

Hvítu hjálmarnir voru stofnaðir árið 2013 og hafa þeir starfað við björgun almennra borgara í Sýrlandi frá þeim tíma. Áður en stríðið braust út voru þeir allir í hefðbundinni vinnu, bakarar, málarar, námsmenn og fleiri. En frá 2013 hafa yfir þrjú þúsund tekið þátt í sjálfboðaliðastarfinu víða um Sýrland.

Einkunnarorð Hvítu hjálmana koma úr Kóraninum: Að bjarga einu mannslífi er liður í að bjarga mannkyninu. En þrátt fyrir að einkunnarorðin komi úr Kóraninum hefur það aldrei skipt björgunarsveitina nokkru máli hverrar trúar fólk er sem þarf á aðstoð að halda. Hvítu hjálmarnir voru tilnefndir til friðarverðlauna Nóbels í fyrra og hafa fengið gríðarlegan stuðning frá alþjóðasamfélaginu.

Andstæðingar sveitarinnar, flestir þeirra eru stuðningsmenn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, saka þá um að vera á vegum alþjóðlegra aðila sem hafa veitt samtökunum fjárhagslegan stuðning. Nokkur ríki koma að fjármögnun Hvítu hjálmanna, þar á meðal Bandaríkin, Bretland, Þýskaland, Japan og Holland. Eins hafa einstaklingar veitt þeim fjárhagslegan stuðning, meðal annars til þess að kaupa hvítu hjálmana sem þeir bera við störf sín. Hver hjálmur kostar 145 Bandaríkjadali. 

 

 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert