Létust í eldsvoða á hóteli

Slökkviliðsmenn flytja slasaða út af hótelinu á laugardag.
Slökkviliðsmenn flytja slasaða út af hótelinu á laugardag. AFP

Yfirvöld í Kína hafa handtekið sjö manns í tengslum við eldsvoða á hóteli í miðju landinu þar sem tíu manns fórust.

Meðal þeirra sem hafa verið handteknir eru verktakar og starfsmenn þeirra sem unnu að byggingu hótelsins. 

Eldurinn braust út á laugardag í HNA Platinum Mix-hótelinu í Jiangxi-héraði. Þrír gestir hótelsins og sjö verkamenn sem þar voru að störfum létust. 

Níu slösuðust og þrír eru enn í lífshættu á sjúkrahúsi.

Eldvarnaeftirlit er oft ekki tekið föstum tökum í Kína. Neyðarútgangar eru oft harðlæstir og flóttaleiðir ófærar. 

Fyrr í þessum mánuðum létust átján á fótasnyrtistofu í landinu. Í janúar létust sjö eldri borgarar á hjúkrunarheimili er eldur braust út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert