Neitaði að hitta Trump

AFP

Faðir bandarísks hermanns í sérsveit bandaríska sjóhersins sem öðlast hefur þjálfun á sjó, í lofti og á landi, sem lést í árás á búðir al-Qaeda-liða í Jemen í síðasta mánuði, neitaði að hitta forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, þegar lík sonar hans kom til Bandaríkjanna.

„Mér þykir það leitt en ég vil ekki hitta hann,“ sagði Bill Owens, faðir William „Ryan“ Owens, við herprestinn. Árásin, sem var gerð 28. janúar, var fyrsta árásin af þessu tagi sem Trump fyrirskipar í embætti. 

Bill Owens segir í samtali við Miami Herald að stjórnvöld skuldi þeim rannsókn á því hvernig staðið var að málum. 

Hann segist ekki skilja hvers vegna ákveðið var að fara í þennan leiðangur þegar svo stutt var liðið frá embættistökunni eða aðeins vika. Síðustu tvö ár hafi ekki verið gerð árás á landi í Jemen heldur aðeins með drónum og flugskeytum. Enda engin skotmörk þess virði eins og staðan var. 

Í frétt BBC kemur fram að Trump hafi samþykkt árásina sem var gerð sex dögum eftir að hann tók við sem forseti. Talið er að fjölmargir almennir borgarar, þar á meðal börn, hafi látist í árásinni. Þrír bandarískir hermenn særðust í árásinni en undirbúningur hennar hófst á meðan Barack Obama var enn forseti Bandaríkjanna.

BBC

Kirkjugarður í Jemen.
Kirkjugarður í Jemen. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert