1.500 barnahermenn í Jemen

Barn í borginni Hodeidah sækir vatn til heimilisins. Þúsundir eru …
Barn í borginni Hodeidah sækir vatn til heimilisins. Þúsundir eru á flótta og hundruð barna eru vannærð og að svelta. AFP

Um 1.500 börn hafa frá árinu 2015 verið látin gegna hermennsku í stríðinu í Jemen. Flest eru börnin í röðum uppreisnarhóps Húta. 

Þetta er niðurstaða rannsóknar Sameinuðu þjóðanna. Stofnunin hefur staðfest að 1.476 börn, allt drengir, hafi verið í röðum hermanna á tímabilinu 26. mars 2015 til 31. janúar í ár. 

„Talan er líklega mun hærri en flestar fjölskyldur vilja ekki tala um að börnin þeirra hafi verið tekin til hernaðar,“ segir Ravina Shamdasani, talsmaður mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Hún segir að í síðustu viku hafi til dæmis borist fréttir af börnum sem látin voru gegna hermennsku án þess að fjölskyldur þeirra vissu af því. 

Hún segir að börnunum sé annaðhvort boðið gull og grænir skógar fyrir að ganga í raðir hermanna eða þau séu þvinguð til þess.

Uppreisnarmenn Húta njóta stuðnings Írana í stríðinu við stjórnarher Jemen. Hútar rændu völdum í höfuðborginni Sanaa árið 2014 og hófu svo að leggja undir sig stærri svæði. 

Stríðið magnaðist í mars árið 2015 er bandamenn undir forystu Sádi-Araba hófu hernað gegn uppreisnarmönnunum og til stuðnings forsetanum Abedrabbo Mansour Hadi.

Shamdasani minnir allar stríðandi fylkingar á að notkun barna í hernaði er stranglega bönnuð samkvæmt alþjóðlegum lögum. Það sé stríðsglæpur þegar börn yngri en fimmtán ára eru notuð í stríði.

4.667 óbreyttir borgarar hafa fallið í stríðinu í Jemen frá árinu 2015. Rúmlega 8.000 hafa særst í átökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert