Finnsk lögregla sýknuð í Pútín-máli

Vladimir Pútín, forseti Rússlands.
Vladimir Pútín, forseti Rússlands. AFP

Finnskur lögreglumaður hefur verið sýknaður af ákæru vegna vanrækslu eftir að nafn Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta birtist í gagngrunni yfir grunaða glæpamenn án nokkurs rökstuðnings.

Nafn Pútíns fannst á listanum árið 2013 sem meints vitorðsmanns að glæpum tengdum glæpagengjum í Rússlandi.

Málið olli miklu fjaðrafoki á sínum tíma og varð finnska lögreglan að biðjast afsökunar opinberlega á „alvarlegri villu“ sem leiddi til rannsóknar.

Lögreglumaðurinn sem var leiddur fyrir rétt vegna málsins hafði umsjón með innri gagnagrunni lögreglunnar. Þar er að finna nöfn fólks sem er grunað um að hafa framið glæpi sem varða að minnsta kosti sex mánaða fangelsi.

Í réttarsal í Helsinki, höfuðborg Finnlands, var úrskurðað að skyldur lögreglumannsins sem annaðist gagnagrunninn hafi ekki verið skilgreindar nógu vel til að hægt væri að gera hann ábyrgan fyrir mistökunum.

Áður hafði sams konar kærum gegn tveimur öðrum lögreglumönnum verið vísað frá af undirrétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert