Fyrsta hjólastólafyrirsæta Úkraínu

Þegar Alexandra Kutas var eitt af aðalnúmerunum á tískusýningu í Kænugarði rættist ekki bara draumur hennar. Viðburðurinn var einnig sigur fyrir fatlað fólk í heimalandi hennar Úkraínu.

Kutast klæddist löngum, svörtum kjól og var borin eftir tískupallinum í viðarhásæti af fjórum karlmönnum. Þar með varð hún fyrsta fatlaða fyrirsætan til að vera í fararbroddi á stórum viðburði í landinu.

Hin 23 ára Kutas hefur verið í hjólastól frá barnsaldri vegna mænuskaða.

„Ég skrifaði bréf til nokkurra módelskrifstofa og þær sögðu mér að ég væri mjög falleg. En þær vissu ekki hvernig þær ættu að koma mér á framfæri og sögðu að markaðurinn væri ekki tilbúinn,“ sagði hún við AFP-fréttastofuna.

„Fyrir tveimur árum var tískuvika haldin í New York þar sem fötluðum var í fyrsta sinn boðið að taka þátt og mér fannst það vera rétti tímapunkturinn.“

Fatlaðir hafa löngum átt erfitt uppdráttar í Úkraínu og hefur opinber umræða um þá verið hálfgert tabú. Alls hafa 23 þúsund manns særst í átökum úkraínskra stjórnvalda við uppreisnarsinna sem njóta stuðnings Rússa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert