Glæpamenn í „meistaradeild“

Skargripasalar í London nota hvelfinguna í Hatton Garden til að …
Skargripasalar í London nota hvelfinguna í Hatton Garden til að geyma gersemar sínar. Þeim var rænt árið 2015. AFP

Tveir úr þjófagenginu sem boruðu sig inn í öryggishvelfingu í Hatton Garden í London árið 2015 og höfðu á brott með sér gull og gersemar, sem þar voru geymdar, eru taldir hafa framið annað svipað rán. Það var framið í skartgripaverslun Chatila árið 2010.

Verknaðarlýsingin er svipuð í báðum þessum málum, sagði saksóknarinn við réttarhöld vegna Chatila-ránsins sem hófust í dag. Í báðum tilfellum voru borar notaðir til að komast inn í öryggisskápa og hvelfingar. Í Chatila mistókst það reyndar en þjófarnir brutust þá inn í sýningarskápa í búðinni og höfðu töluvert af skartgripum á brott með sér. 

Öryggisskápurinn í Chatila var hlaðinn skartgripum sem verðmetnir voru á um 5 milljarða króna. Þjófarnir komust ekki að þeim en skartgripirnir sem þeir tóku með sér voru metnir á 130 milljónir króna. 

Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar um réttarhöldin í dag segir að mennirnir tveir heiti Danny Jones, 59 ára, og Terry Perkins, 68 ára. Gengið sem braust inn í Hatton Garden náði að stela þaðan skarti og gulli sem verðmetið er á um 14 milljónir punda, tæpa tvo milljarða króna. Það er mögulega mun verðmætara, því ekki hafa allir sem áttu verðmæti í öryggishvelfingunni gefið sig fram. 

Fimmmenningarnir sem frömdu ránið hafa allir játað sök og skilað hluta verðmætanna. Þeir hafa þegar verið dæmdir fyrir innbrotið. Fjór­ir fengu sjö ára fang­els­is­dóm og einn fékk sex ára dóm. 

Saksóknarinn sagði um Chatila-ránið við réttarhöldin í dag: „Þetta var glæpur á meistaradeildarmælikvarða sem þurfti meistaradeildarglæpamenn til að framkvæma.“

Jones hefur játað að hafa brotist inn í Chatila-búðina. Erfðaefni úr honum fannst á hanska á staðnum. Perkins hefur hins vegar neitað sök.

Það er mjög margt líkt með innbrotunum tveimur. Þau voru t.d. bæði framin um langa helgi, lykill var notaður til að komast inn í byggingarnar, búið var að aftengja þjófavarnir, lyftugöng voru notuð og búið var að stela harða disknum úr öryggismyndavélum beggja staða. 

Saksóknarinn sagði þetta ekki allt geta verið tilviljun. Skýringin væri sú að sömu mennirnir hefðu verið að verki. 

Ránið í Hatton Garden var lengi ráðgáta. Á meðan rannsókn málsins stóð var hlerunarbúnaði komið fyrir í bíl Perkins. Á upptökunni mátti heyra hann og Jones ræða innbrotið. Þeir ræddu, að sögn saksóknarans, einnig önnur mál, m.a. annað rán og hvernig þeir stóðu að því. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert