Fjögurra manna fjölskylda horfin

Hús fjölskyldunnar í Nantes í vesturhluta Frakklands. Börnin tvö, 18 …
Hús fjölskyldunnar í Nantes í vesturhluta Frakklands. Börnin tvö, 18 og 20 ára, eru horfin ásamt foreldrum sínum. AFP

Ekkert hefur spurst til fjögurra manna franskrar fjölskyldu frá borginni Nantes í tvær vikur. Málið er nú rannsakað sem morð. Franska þjóðin er slegin óhug.

Blóðblettir hafa fundist á heimili fjölskyldunnar í úthverfi Nantes. Búið er að staðfesta með DNA-rannsóknum að blóðið er úr þremur af fjórum þeirra sem saknað er, að sögn saksóknarans Pierre Sennes.

Hjónin sem eru horfin heita Pascal og Brigitte Troadec. Þau eru bæði um fimmtugt. Börnin þeirra heita Sebastien, 21 árs, og Charlotte, sem er átján ára. Ekkert hefur til þeirra spurst síðan 16. febrúar. 

Sennes segir að nú sé málið rannsakað sem morð og mannrán. 

Lögreglan hefur rannsakað húsið ítarlega og meðal annars fundið blóðbletti …
Lögreglan hefur rannsakað húsið ítarlega og meðal annars fundið blóðbletti víða, t.d. á síma sonarins og úri dótturinnar. AFP

Hvarf fjölskyldunnar hefur í fjölmiðlum verið borið saman við morð sem framið var árið 2011. Þá voru fimm úr sömu fjölskyldu myrtir á svipuðum slóðum, þ.e. í nágrenni Nantes. Sebastien gekk í sama menntaskóla og eitt fórnarlambið. 

Fjölskyldufaðirinn Xavier Dupont de Ligonnes er enn á flótta og hefur alþjóðleg handtökuskipun verið gefin út á hendur honum.

Nágrannar Troadec-fjölskyldunnar segja að Sebastien hafi glímt við geðræn vandamál og Pascal hafi glímt við þunglyndi um hríð.

Saksóknarinn Sennes hefur staðfest að Sebastien hafi hlotið dóm fyrir líflátshótanir á bloggi sínu árið 2013. Hann var þá of ungur til að hljóta fangelsisdóm en sinnti samfélagsþjónustu þess í stað.

Bekkjarfélagar Sebastiens segja hann hins vegar vera vingjarnlegan rólyndispilt sem alltaf sé tilbúinn að hjálpa öðrum. 

Sebastien og Charlotte voru heima í vetrarfríi frá skólanum er þau hurfu. Sennes segir að enn hafi ekki tekist að finna bíl Sebastiens. Bíl foreldra hans var lagt fyrir utan húsið.

Blóð á síma og úri

Saksóknarinn segir að blóðblettir hafi fundist á nokkrum stöðum í húsinu sem er á tveimur hæðum. Þá hafi blóð fundist á farsíma Sebastiens og á armbandsúri Brigitte. Þá séu ummerki um að reynt hafi verið að þrífa blóðið.

Hvorki hár- né tannburstar fundust í húsinu. Tekið hafði verið utan af rúmunum og sængurföt héngu til þerris á snúru innandyra.

Ísskápurinn var fullur af mat og óhreint leirtau var í vaskinum. Sennes segir að engin hreyfing sé á bankareikningum fjölskyldunnar og engin virkni í símum þeirra. Slökkt er á öllum símunum. Síðast var slökkt á síma Sebastiens.

„Það er eins og lífið í húsinu hafi verið fryst á einu andartaki,“ segir Sennes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert