Sofa á hliðinni eða ofan á hvor öðrum

AFP

Brýnna úrbóta er þörf innan taílenska fangelsiskerfisins, þar sem aðstæður í fangelsum eru sums staðar þannig að þau hýsa fimm sinnum fleiri fanga en þeim er ætlað. Neyðast fangarnir til að sofa á hliðinni eða með fæturna ofan á hvor öðrum vegna þrengslanna.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu International Federation of Human Rights (FIDH). Þar segir einnig að hver ríkisstjórnin á fætur annarri hafi látið liggja að taka á málinu.

Þá er aðstæðum verulega ábótavant í mörgum fangelsa landsins, m.a. hvað varðar fæði, hreinlæti og heilbrigðistaðstoð.

Á heimsvísu er Taíland í tíunda sæti þegar kemur að fjölda fanga miðað við höfðatölu en þar sitja 425 af hverjum 100.000 íbúum í fangelsi. Ástandið er hvergi verra í Suðaustu-Asíu.

Fjöldann má rekja til strangrar fíkniefnalöggjafar en sem dæmi má nefna að sá sem er gripinn með nokkrar metamfetamíntöflur á yfir höfði sér tíu ára fangelsi. Um 70% þeirra sem sitja inni í Taílandi hafa hlotið fíkniefnadóma.

Samkvæmt talsmanni dómsmálaráðuneytis landsins stendur til að endurskoða fíkniefnalöggjöfina og dreifa föngunum betur niður á fangelsin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert