500 dýr drepist á fjórum árum

Gíraffi var aflífaður þegar hann datt niður í jörðina.
Gíraffi var aflífaður þegar hann datt niður í jörðina. AFP

Yfirvöld í Cumbria á Englandi hafa verið hvött til að hafna umsókn dýragarðs um endurnýjun rekstrarleyfis en í skýrslu um garðinn kemur m.a. fram að 500 dýr hafa drepist þar á fjórum árum. Þá var dýragarðurinn sektaður um 255.000 pund eftir að einn starfsmanna, Sarah McClay 24 ára, var drepin af súmötrutígri í maí 2013.

Rannsakendur gera fjöldamargar athugasemdir við South Lakes Safari Zoo í Dalton-in-Furness, sem var stofnaður 1994. Aðbúnaði dýranna í garðinum sé ábótavant, þau séu of mörg og ekki hugað að velferð þeirra með viðunandi hætti.

Alls hafa 486 dýr drepist í garðinum 2013-2016, þeirra á meðal dýr sem voru aflífuð þar sem stjórnendur garðsins virðast ekki hafa haft stjórn á undaneldinu í garðinum. Sjö heilbrigðir ljónsungar og fimm ungir bavíanar voru t.d. aflífaðir vegna plássleysis. Þá skaut eigandi garðsins 18 fugla af tegundinni Threskiornis aethiopicus eftir að honum var hótað málsókn fyrir að leyfa þeim að fljúga frjálsum.

Meðal annarra tilvika sem talin eru  upp í skýrslu rannsakenda er þegar gíraffi var skotinn af starfsmanni eftir að hann datt niður í jörðina, að tveir snæhlébarðar fundust hálfétnir og að tveir íkornaapar greindust með veirublæðisveiru. Þá reyndist sundlaug mörgæsanna í garðinum tóm við skoðun.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Sky News.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert