Lávarðar leggja stein í götu May

Lávarðadeild breska þingsins.
Lávarðadeild breska þingsins. AFP

Lávarðadeild breska þingsins mun að öllum líkindum leggja stein í götu forsætisráðherrans Theresu May með því að samþykkja viðauka Verkamannaflokksins við Brexit-frumvarp ríkisstjórnarinnar, þess efnis að ríkisborgarar Evrópusambandsríkja búsettir í Bretlandi njóti óbreyttra réttinda eftir að Bretar ganga úr sambandinu.

Atkvæðagreiðsla um málið fer fram í dag. Ef þingmenn lávarðadeildarinnar samþykkja viðaukann fer málið aftur til neðri deildar þingsins.

Umrædd löggjöf veitir May heimild til að virkja 50. grein Lissabon-sáttmálans en við það hefjast tveggja ára viðræður um skilmála úrsagnar. Gera má ráð fyrir að málefni innflytjenda verði efst á baugi í viðræðunum.

Eins og sakir standa eru örlög þeirra þriggja milljóna ríkisborgara Evrópusambandsríkja sem búsettir eru í Bretlandi óráðin. Ríkisstjórnin hefur sagst munu tryggja rétt þeirra til að búa áfram í Bretlandi en hefur ekki viljað gefa loforð þar um.

Það gustar um Theresu May þessa dagana og hún hefur …
Það gustar um Theresu May þessa dagana og hún hefur nóg á sinni könnu. AFP

May hefur sagt að Bretar geti ekki tekið einhliða ákvörðun hvað þetta varðar, heldur verði að skoða þetta í samhengi við rétt þeirra 1,2 milljón bresku þegna sem búa í ríkjum Evrópusambandsins.

Leiðtogi Verkamannaflokksins í lávarðadeildinni, barónessan Angela Smith, hefur hins vegar sakað forsætisráðherrann um að ætla að nota fólkið sem vogarafl í samningaviðræðunum við ESB.

Viðauki Verkamannaflokksins kveður á um að ríkisstjórnin fái þriggja mánaða frest til að grípa til aðgerða til að tryggja rétt þeirra íbúa Bretlands sem eiga ríkisfang í öðrum Evrópusambandsríkjum.

Innanríkisráðherrann Amber Rudd reit þingmönnum lávarðadeildarinnar bréf þar sem hún hvatti þá til að tefja ekki frumvarp ríkisstjórnarinnar, en það virðist ekki hafa borið tilætlaðan árangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert