Leita ítarlega í húsi fjölskyldunnar

Troadec-fjölskyldan: Pascal, Brigitte, Sebastien og Charlotte.
Troadec-fjölskyldan: Pascal, Brigitte, Sebastien og Charlotte. AFP

Lögregla gerði í dag ítarlega húsleit í borginni Nantes í Frakklandi á heimili fjögurra manna fjölskyldu sem hvarf sporlaust með dularfullum hætti fyrir tveimur vikum.

„Það er ný leitaraðgerð í gangi í húsinu,“ segir saksóknarinn Pierre Sennes. Hann segir hávísinda- og tæknilegum aðferðum veitt við rannsóknina. 

Við húsið mátti í dag sjá tæknimenn klædda hvítum búningum frá hvirfli til ylja. Lögreglan hefur girt húsið í Orvault-hverfinu í Nantes af. 

Troadec-fjölskyldan er horfin. Hjónin Pascal og Brigitte eru 49 ára, sonurinn Sebastien er 21 árs og dóttir hjónanna er Charlotte, átján ára. Ekkert hefur til fjölskyldunnar spurst frá því 16. febrúar. 

Sannes hefur áður sagt að bíl Sebastiens sé hvergi að finna en að bíl foreldranna hafi verið lagt í innkeyrslu hússins. Börnin tvö voru heima í vetrarfríi frá skólum sínum er fjölskyldan hvarf. 

Blóðblettir fundust á víð og dreif um húsið sem er á tveimur hæðum. Þá fannst blóð á farsíma Sebastiens og á armbandsúri Brigitte. Lögregla hefur einnig fundið ummerki um að reynt hafi verið að þrífa blóðið í burtu.

Blóð úr þremur fannst í húsinu

Blóð úr föðurnum, móðurinni og syninum hefur verið greint í húsinu. Ekkert blóð úr dótturinni hefur fundist þar.

Málið er rannsakað sem morð en það var ekki fyrr en viku eftir hvarf þeirra að lögreglan fékk tilkynningu um málið. 

Hvorki hár- né tannburstar fundust í húsinu. Búið var að taka utan af rúmunum og rúmföt höfðu verið þvegin og lágu til þerris innandyra.

Þá var ísskápurinn fullur af mat og óhreint leirtau í eldhúsvaskinum. 

Þann sama dag og síðast spurðist til fjölskyldunnar, þann 16. febrúar, höfðu mæðgurnar tilkynnt um sviksamlega notkun á bankakorti dótturinnar. 

Hvarf fjölskyldunnar hefur vakið mikinn óhug í Frakklandi. Í þarlendum fjölmiðlum hefur komið fram að sonurinn hlaut fyrir nokkrum árum dóm fyrir líflátshótanir sem hann birti á bloggsíðu sinni. Hann var þá unglingur og tók út refsingu sína í samfélagsþjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert