Stál- og kolastörfum fækkar um 500.000

Kínverskir verkamenn flytja til stálrör.
Kínverskir verkamenn flytja til stálrör. AFP

Stjórnvöld í Kína hafa tilkynnt að störfum í stál- og kolaiðnaði muni fækka um 500.000 á þessu ári, m.a. vegna minnkandi eftirspurnar á alþjóðlegum mörkuðum. Þeir sem missa vinnuna verða aðstoðaðir við að finna aðra vinnu eða gert kleift að fara fyrr á eftirlaun.

Um helmingur alls stáls í heiminum kemur frá Kína en starfsmenn í iðnaðinum eru alltof margir nú þegar hægt hefur á eftirspurn og hagvexti.

Stjórnvöld tilkynntu í fyrra að þau hygðust fækka störfum í stál- og kolaiðnaði um 1,8 milljón. 726.000 störf voru lögð niður í fyrra.

Að sögn talsmanna Kínastjórnar hefur framkvæmdin gengið vel en víða hefur komið til mótmæla. Í apríl 2016 mótmæltu t.d. hundruðir stálverkamanna í norðurhluta Hebei-héraðs eftir að þeim var sagt upp.

Í fortíðinni hefur landbúnaðurinn mildað áhrif aðgerða af þessu tagi í Kína, þar sem fólk hefur ávallt getað fengið störf innan þess geira. Á síðasta áratug hefur hröð uppbygging þéttbýlis hins vegar gengið verulega á jarðnæði.

Kínverska hagkerfið óx um 6,7% í fyrra en um er að ræða minnsta vöxt í aldarfjórðung.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert