„Sjúk og siðlaus“ árás í London

Theresa May í ávarpi sínu.
Theresa May í ávarpi sínu. AFP

Öryggisstig Bretlands vegna hryðjuverkaógnar verður ekki hækkað þrátt fyrir árásina við þinghúsið í London í dag. Þetta segir Theresea May, forsætisráðherra Bretlands. Auk árásarmannsins létust þrír í árásinni og um tuttugu særðust.

„Öryggisstig Bretlands hefur verið hátt í töluverðan tíma og það mun ekki breytast,“ sagði May í sjónvarpsávarpi sínu fyrir utan skrifstofu sína í Downingstræti.

Lítið er vitað um árásarmanninn. Vitni lýstu honum sem miðaldra manni af suður-asískum uppruna sem hélt á stórum hníf.

Á ljósmynd sem breskir fjölmiðlar birtu sást skeggjaður maður, sem var sagður vera árásarmaðurinn, liggja á sjúkrabörum.

May fordæmdi árásina og sagði hana „sjúka og siðlausa“, að því er Sky News greindi frá.

Hún lýsti yfir ánægju með „einstakt hugrekki“ lögreglunnar og öryggisvarða meðan á árásinni stóð. Einnig þakkaði hún sjúkraflutningamönnum og sjúkraliðum fyrir þeirra framlag.

Hún sagði að allar tilraunir til að gera lítið úr þeim gildum sem breska þingið stendur fyrir væru „dæmdar til að mistakast“.

„Hugur okkar og bænir eru hjá öllum þeim sem tengjast árásinni, hjá fórnarlömbunum, fjölskyldum þeirra og vinum sem kvöddu ástvini sína en fá aldrei að hitta þá aftur,“ sagði May.

Lögreglumenn að störfum skammt frá þinghúsinu í London.
Lögreglumenn að störfum skammt frá þinghúsinu í London. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert