Andstæðingur Pútíns skotinn til bana

Denis Voronenkov liggur í blóði sínu fyrir utan hótel í …
Denis Voronenkov liggur í blóði sínu fyrir utan hótel í Kænugarði. Hann lést í árásinni. AFP

Fyrrverandi rússneskur þingmaður, Denis Voronenkov, var skotinn til bana í Kænugarði í Úkraínu. Lögreglan segir að óþekktur árásarmaður hafi skotið hann við inngang hótels í höfuðborginni.

Voronenkov var 45 ára. Hann flutti til Úkraínu síðasta haust og hafði hlotið ríkisborgararétt þar í landi.

Hann yfirgaf Rússland ásamt eiginkonu sinni, söngkonunni Mariu Maksakovu, sem var einnig þingmaður. Hann gaf þá skýringu að hann hafði farið frá heimalandinu því rússneskar öryggissveitir væru að ofsækja sig. 

Í frétt Guardian segir að Voronenkov hafi veitt mörg viðtöl eftir að hann fór frá Rússlandi þar sem hann gagnrýndi Vladimír Pútín Rússlandsforseta harðlega. Margir Úkraínumenn gagnrýndu að honum hefði verið veittur ríkisborgararéttur, ekki síst vegna þess að hann hafði tekið þátt í atkvæðagreiðslu um innlimun Krímskaga á rússneska þinginu.

Lögreglan tekur upp byssu sem fannst skammt frá þeim stað …
Lögreglan tekur upp byssu sem fannst skammt frá þeim stað þar sem þingmaðurinn fyrrverandi var myrtur. AFP

Voronenkov var að sögn Guardian á leið til fundar við Ilya Ponomarev, annan fyrrverandi rússneskan þingmann, er hann var skotinn.

Voronenkov dvaldi á Premier Palace-hótelinu í Kænugarði og var skotinn þar fyrir utan. Hótelið er vinsælt meðal viðskiptafólks og stjórnarerindreka. 

„Ég á ekki orð. Öryggisvörður gat sært árásarmanninn. Kenning um árásina liggur í augum uppi. Voronenko var ekki glæpamaður heldur rannsakandi sem var hættulegur rússneskum stjórnvöldum,“ skrifaði Ponomarev eftir árásina á Facebook.

Í yfirlýsingu sem Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, sendi frá sér vegna málsins sagði hann Voronenkov hafa verið lykilvitni að ágangi Rússa gagnvart Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert