Árásin í London í hnotskurn

Einn þeirra sem særðist í árás mannsins sést hér liggja …
Einn þeirra sem særðist í árás mannsins sést hér liggja á Westminsterbrúnni. Um fjörutíu vegfarendur særðust, þar af sjö alvarlega. AFP

Fyrst ók hann á mannfjöldann á Westminsterbrúnni. Tveir létust. Þá ók hann að þinghúsinu og stakk lögreglumann til bana. Hann var síðar sjálfur skotinn til bana af lögreglunni. Um fjörutíu særðust í árás í London í gær. Talið er að árásarmaðurinn hafi verði einn að verki en lögreglan handtók í nótt sjö menn í tengslum við rannsókn málsins.

Mbl.is fer hér að neðan yfir atburðarásina frá árás í gær til handtöku í dag. 

  • Um klukkan 14.40 í gær ók árásarmaðurinn um Westminsterbrúnna á miklum hraða og á gangandi vegfarendur. Tveir létust, kona á fimmtugsaldri og karlmaður á sextugsaldri. Konan hefur verið nafngreind í fjölmiðlum. Hún hét Aysha Frade og var 43 ára, tveggja barna móðir.
  • Árásarmaðurinn ók svo upp að þinghúsinu. Þar ók hann bíl sínum á, fór út úr honum og reyndi að komast inn í þinghúsið, vopnaður hnífi.
  • Hann stakk óvopnaðar lögreglumann sem lést síðar af sárum sínum. Lögreglumenn skutu í kjölfarið árásarmanninn til bana.
  • Lögreglumaðurinn sem lést hét Keith Palmer. Hann var 48 ára og hafði starfað í lögreglunni í fimmtán ár. Hann hafði meðal annars það hlutverk að vera í öryggisteymi þinghússins. Lundúnalögreglan segir að hann hafi átt eiginkonu og börn.
  • Lögreglan telur sig vita hver árásarmaðurinn er. Þeir telja að hann hafi framkvæmd árásina einn en telur hana tengjast alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. 
    Westminsterbrúin er vinsæl gönguleið ferðamanna, ekki síst vegna þess að …
    Westminsterbrúin er vinsæl gönguleið ferðamanna, ekki síst vegna þess að þaðan blasir klukkuturninn frægi Big Ben við. Hér má sjá þetta þekkta kennileiti við dögun í morgun. AFP
  • Theresa May forsætisráðherra Bretlands lýsir árásinni sem „sjúkri“ en að atburðirnir myndu ekki grafa undan breskum gildum. May var flutt úr þinghúsinu nokkrum mínútum eftir að árásin var gerð. Var henni ekið að Downingstræti 10.
  • Þrír franskir menntaskólanemar, fjórir breskir háskólanemar, tveir Rúmenar, fimm suðurkóreskir ferðamenn og þýsk kona eru meðal þeirra sem særðust á Westminsterbrúnni. Sjö þeirra sem særðust eru enn á sjúkrahúsi en 29 til viðbótar fengu aðhlynningu á spítala. 
  • Ein kona annað hvort stökk eða var hent í Thames-ánna af brúnni. Henni var stuttu síðar bjargað á lífi úr ánni. Hún hlaut alvarlega áverka. 
  • Meðal þeirra sem hlúðu að særðum er ráðherra hryðjuverkamála, Tobias Ellwood. Hann er fyrrverandi hermaður. Hann veitti lögreglumanninum sem var stunginn fyrstu hjálp. Á myndum sem birtar hafa verið má sjá ráðherrann útataðan í blóði lögreglumannsins sem síðar lést af sárum sínum.
  • Lundúnalögreglan segir árásina hryðjuverk.
  • Borgarstjóri Lundúna, Sadiq Khan, sagði í yfirlýsingu að íbúar borginnar myndu aldrei láta hryðjuverkamenn kúga sig.
  • Eftir árásina var Westminsterbrúnni lokað og Thames-ánni einnig lokað fyrir umferð báta og skipa. Þá hóf lögreglan þegar í stað leit í byggingum í nágrenni vettvangsins.
  • Nokkrir þingmenn voru læstir inni í þinghúsinu í um fimm klukkustundir eftir að árásin var framin. Var það gert af öryggisástæðum.
    Að minnsta kosti þrír létust í árásinni, tveir gangandi vegfarendur …
    Að minnsta kosti þrír létust í árásinni, tveir gangandi vegfarendur á Westminsterbrúnni og einn lögreglumaður við þinghúsið. AFP
  • Leiðtogar ríkja heims hafa fjölmargir fordæmt árásina.
  • Í nótt voru húsleitir gerðar í tengslum við rannsókn málsins, m.a. í suðvesturhluta Birmingham, að því er fram kemur í fréttum Guardian.
  • Lögreglan hefur staðfest að hún hafi handtekið sjö.

Grein þessi byggir á fréttum BBC, AFP og Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert