Kennir M5S um fjölgun mislingatilfella

Beppe Grillo, leiðtogi Fimm stjörnu hreyfingarinnar á Ítalíu.
Beppe Grillo, leiðtogi Fimm stjörnu hreyfingarinnar á Ítalíu. AFP

Raniero Guerra, framkvæmdastjóri forvarna í ítalska heilbrigðisráðuneytinu, hefur bent á Fimm stjörnu-hreyfingu Beppe Grillo í sambandi við fjölgun mislingatilfella en flokkurinn hefur haldið þeim falsindum á lofti að tengsl séu milli bólusetninga og einhverfu.

Samkvæmt heilbrigðisráðuneytinu ítalska hafa fleiri en 700 mislingatilfelli greinst það sem af er ári en þau voru 220 á sama tímabili í fyrra og 844 allt árið 2016.

Aukningin helst í hendur við lækkandi hlutfall tveggja ára barna sem eru bólusett en það stóð í 88% árið 2013 og 85,3% árið 2015. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir með því að lönd miði við að halda hlutfallinu í 95%.

Árið 2105 lagði Fimm stjörnu-hreyfingin, M5S, fram tillögur þess efnis að banna bólusetningar vegna meintra orsakatengsla milli bólusetninga og sjúkdóma á borð við hvítblæði, sjálfsónæmis, erfðasjúkdóma, krabbameina, einhverfu og ofnæma.

Tilfellin í ár hafa að mestu verið bundin við Piedmont, Lazio, Tuscany og Lombardy en sumir lækna í þessum héruðum hafa hvatt foreldra til að bólusetja ekki börnin sín. Tveir flokksmenn M5S komust til valda sem borgarstjórar í Piedmont og Lazio í fyrra.

„Fólk úr M5S segir mislinga eðlilega og að við sjáum toppa á þriggja ára fresti, svo af hverju séu þeir hættulegir? Nú, ég segi að það sé ekki eðlilegt að sjá toppa eða faraldra; við eigum að vera mislingalaust land,“ sagði Guerra í samtali við Guardian.

Í síðustu viku tók Beatrice Lorenzin, heilbrigðisráðherra Ítalíu, upp hanskann fyrir bóluefnin.

„Bólusetning er eina vopnið sem við eigum gegn alvarlegum sjúkdómum á borð við mislinga; það er komið nóg af röngum upplýsingum. Það eru engin tengsl milli bóluefna og einhverfu.“

Þrátt fyrir að flestir nái sér að fullu af mislingum geta þeir valdið blindu og dauða.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert