Samræður starfsmanna Trumps hleraðar

Devin Nunes, formaður njósnanefndar þingsins, segir samræður starfsmanna Donald Trumps …
Devin Nunes, formaður njósnanefndar þingsins, segir samræður starfsmanna Donald Trumps Bandaríkjaforseta hafa verið hleraðar að hluta eftir kosningarnar AFP

Upplýsingar um að samræður starfsmanna Donald Trumps Bandaríkjaforseta hafi verið hleraðar að hluta eftir kosningarnar, er að finna í gagnasöfnun njósnastofnanna, að því er Devin Nunes, formaður njósnanefndar þingsins greinir frá.

Sagði Nunes suma starfsmenn forsetans vera nefnda á nafn ýmsum ólíkum skýrslum og að nafnabirtingin sé „fullkomlega óviðeigandi.“ Þetta styddi hins vegar ekki fullyrðingar forsetans um að Barack Obama þáverandi forseti hefði fyrirskipað hlerun á Trump turninum fyrir kosningar. 

Er Trump var spurður hvort hann teldi sig hafa hlotið uppreisn æru, svaraði forsetinn þó: „Mér finnst það að nokkru leiti. Ég er þakklátur fyrir að þeir fundu það sem þeir fundu.“

Tengist ekki rannsókninni á Rússatengslunum

Nunes ítrekaði einnig að þetta samansafn upplýsinga tengist ekki rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar FBI á meintum tengslum samstarfsmanna Trumps og rússneskra embættismanna í kosningabaráttunni.

Demókrataþingmaðurinn Adam Schiff, sem einnig á sæti í nefndinni, gagnrýndi Nunes fyrir að ræða ekki við aðra nefndarmenn áður enn hann gerði upplýsingarnar opinberar. „Svona stendur maður ekki að rannsókn. Maður fer ekki með upplýsingar sem nefndin hefur ekki séð og kynnir þær munnlega fyrir fjölmiðlum og Hvíta húsinu, áður en nefndin fær svo mikið sem tækifæri til að leggja mat á það hvort eitthvað mikilvægt komi þar fram,“ hefur fréttavefur BBC eftir Schiff.

Þá benti Schiff á að ekki hefði komið fram hjá Nunes hvort einhver misfella hefði verið í rannsóknunum sem hann vitnaði í.

Fylgjast reglulega með áhugaverðum útlendingum

Upplýsingaöflunin sem átti sér aðallega stað í nóvember, desember og janúar og segir Nunes ónafngreindan aðila hafa vakið athygli sína á henni.

BBC segir bandarískar njósnastofnanir reglulega fylgjast með útlendingum sem vekja áhuga þeirra á ferðum sínum um Bandaríkin. Hafi einhver af starfsmönnum Trumps, eða forsetinn sjálfur, verið í samskiptum við einstakling sem var undir eftirliti njósnastofnananna, þá verði að teljast líklegt að þau samskipti hefðu verið skráð.

Slík gögn myndu falla í flokk „löglegs eftirlits“ sem Nunes nefndi á fundi sínum með fjölmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert