Lögfræðingur Trump næsti sendiherra í Ísrael

David Friedman fyrrverandi lögmaður Trumps í gjaldþrotamálum er næsti sendiherra …
David Friedman fyrrverandi lögmaður Trumps í gjaldþrotamálum er næsti sendiherra Bandaríkjanna í Ísrael. AFP

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær David Friedman sem næsta sendiherra Bandaríkjanna í Ísrael. Skipanin var samþykkt með 52 atkvæðum gegn 46, en Friedman hefur verið gagnrýninn á tveggja ríkja lausnina í deilu Ísrael og Palestínu auk þess að vera stuðningsmaður landnemabyggða á Vesturbakkanum.

Þá hefur Friedman að sögn fréttavefjar BBC verið fylgjandi því að sendiráð Bandaríkjanna í Ísrael verði flutt frá Tel Aviv til Jerúsalem. Sameinuðu þjóðirnar viðurkenna Jerúsalem ekki sem höfuðborg Ísraels enda gera Palestínumenn einnig tilkall til hluta borgarinnar og hefur bandaríska sendiráðið áratugum saman verið staðsett í Tel Aviv. 

Friedman var áður lögfræðingur Donald Trump Bandaríkjaforseta í gjaldþrotamálum og veitti forsetanum einnig ráðgjöf í málefnum Ísraels í kosningabaráttunni.

Hét því að sýna stillingu

Í yfirheyrslum þingsins vegna skipanar sinnar í sendiherrastöðuna baðst Friedman afsökunar á harkalegu orðafari sínu áður fyrr og hét því að vera „kurteis og sýna stillingu“ ef skipanin yrði samþykkt.

Frjálslyndir gyðingar í Bandaríkjunum hafa lýst áhyggjum og andstöðu við skipan Friedmans. Íhaldssamari landar þeirra úr röðum gyðinga fagna hins vegar skipun hans og telja nokkuð öruggt að hún muni bæta samband ríkjanna. Það sama gerði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sem átti í stirðu sambandi við Barack Obama, forvera Trump á forsetastóli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert