Sýknaður því þolandinn öskraði ekki nógu hátt

Meintur brotaþoli varð fyrir kynferðisofbeldi í æsku. Mynd úr safni.
Meintur brotaþoli varð fyrir kynferðisofbeldi í æsku. Mynd úr safni. AFP

Dómsmálaráðherra Ítalíu hyggst rannsaka hvers vegna maður var sýknaður af nauðgunarkæru í Tórínó. Meintur þolandi öskraði ekki „nógu hátt“ og á þeirri forsendu var maðurinn sýknaður af nauðguninni.

Samkvæmt dómnum segir að konan hafi ekki beðið starfsfélaga sinn, meintan nauðgara, nógu skýrt um að láta af athæfinu. Konan á yfir höfði sér kæru um að bera rangar sakargiftir upp á manninn. Málið hefur vakið sterk viðbrögð á Ítalíu. 

Meint nauðgun átti sér stað árið 2011 á spítala þar sem þau bæði unnu, konan og maðurinn. Konan heldur því fram að maðurinn hafi neytt hana til kynmaka og hótað henni brottrekstri ef hann fengi ekki vilja sínum framgengt. Hún sagði fyrir dómi að hún hafi hreinlega frosið. Maðurinn viðurkenndi samræði en hélt því fram að það hefði verið með vilja konunnar.

Við réttarhöldin kom einnig fram að konan hefði verið misnotuð af föður sínum þegar hún var barn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert