Tveir menn enn í varðhaldi

Lögreglan að störfum vegna málsins í norðvesturhluta Englands.
Lögreglan að störfum vegna málsins í norðvesturhluta Englands. AFP

Sjö af þeim ellefu manneskjum sem voru handteknar eftir árásina í Westminster í London hefur verið sleppt úr haldi lögreglu án þess að til frekari aðgerða verður gripið gegn þeim.

Tveir menn eru enn varðhaldi, auk þess sem tveimur konum hefur verið sleppt úr haldi gegn tryggingu, samkvæmt frétt BBC.

Lögreglan reynir hvað hún getur til að finna út hvort Khalid Masood hafi verið einn að verki þegar hann framdi verknaðinn.

Khalid Masood.
Khalid Masood. AFP

Stjórnvöld í Saudi-Arabíu hafa staðfest að Masood hafi starfað í landinu sem enskukennari á tveimur mismunandi tímabilum frá 2005 til 2009.

Fimm létust í árásinni, þar á meðal Masood og lögreglumaður sem hann stakk. Fimmtíu særðust að auki.  

Lögreglan ætlar að beina sjónum sínum að því hvað fékk Masood til þess að fremja árásina, undirbúningi hans og hvort einhverjir hafi starfað með honum.

Þeir sem eru enn í haldi eru 27 ára og 58 ára karlmenn frá Birmingham.

Önnur kvennanna sem var sleppt lausum gegn tryggingu var handtekin í Manchester og er hún 32 ára. Hin konan er 39 ára og er hún frá austurhluta London.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert