Carrie Lam nýr leiðtogi Hong Kong

Nýr æðsti leiðtogi Hong Kong, Carrie Lam.
Nýr æðsti leiðtogi Hong Kong, Carrie Lam. AFP

Carrie Lam hefur verið kjörin æðsti leiðtogi Hong Kong. Þetta er í fyrsta skipti sem kona gegnir stöðunni, en leiðtoginn er valinn af sérstakri 1.200 manna nefnd.

Lam var með stuðning frá kínverskum stjórnvöldum og var sigur hennar talinn nokkuð öruggur, en tveir aðrir voru í framboði. Hong Kong er með sjálfsstjórn en undanfarið hafa hávær mótmæli heyrst þar vegna meintra aukinna afskipta kínverskra stjórnvalda af Hong Kong.

Leiðtoginn er eins og fyrr segir ekki kjörinn í atkvæðagreiðslu almennings heldur af nefnd sem samanstendur af miklum hluta af stuðningsmönnum kínverskra stjórnvalda.

Carrie Lam ásamt hinum frambjóðendunum, Woo Kwok-hing og John Tsang.
Carrie Lam ásamt hinum frambjóðendunum, Woo Kwok-hing og John Tsang. AFP

Sjálfstæðissinnar voru áberandi fyrir utan kjörstaðinn í dag og kölluðu kosningarnar skrípaleik. Helsti andstæðingur Lam, John Tsang, var í uppáhaldi meðal almennings samkvæmt skoðanakönnunum. Þriðji frambjóðandinn og sá frjálslyndasti var fyrrverandi dómarinn Woo Kwok-hing.

Lam, sem er 59 ára, hlaut 777 atkvæði, Tsang 365 og Woo 21. Lam tekur við af CY Leung sem hættir í júlí. Hún starfaði áður sem aðstoðarkona hans.

Mótmælendur hafa lengi gagnrýnt kosningafyrirkomulagið á leiðtoga landsins og kallaði aðgerðasinninn Joshua Wong kosningarnar í dag til að mynda „val fremur en kosningar“.

Mótmælendur söfnuðust saman fyrir framan kjörstaðinn í morgun.
Mótmælendur söfnuðust saman fyrir framan kjörstaðinn í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert