Geta ekki lesið síðustu skilaboðin

Amber Rudd, innanríkisráðherra Bretlands, segir mikilvægt að lögreglan hafi aðgang …
Amber Rudd, innanríkisráðherra Bretlands, segir mikilvægt að lögreglan hafi aðgang að öllum þeim gögnum sem hún þurfi, þ.m.t. dulkóðuðum skilaboðum. AFP

Það má ekki vera til „neinn staður þar sem hryðjuverkamenn geta falið sig“ og leyniþjónustan verður að geta haft aðgang að dulkóðuðum skilaboðum. Þetta segir Amber Rudd, inn­an­rík­is­ráðherr­a Bretlands. BBC greinir frá.      

Í ljós hefur komið að Khalid Masood, sem varð fjór­um að bana í hryðjuverkaárás­inni á miðvikudaginn, hafði sent skilaboð á snjallsímaforritinu WhatsApp aðeins tveimur mínútum áður en hann gerði árásina við þinghúsið í Westminster. 

Lögreglan hefur ekki getað lesið skilaboðin sem hann sendi. 

Amber Rudd sagðist jafnframt ætla að óska eftir því að tæknifyrirtæki myndu starfa með stjórnvöldum. Hún á fund með þeim í vikunni. „Við verðum að tryggja að leyniþjónustan okkar hafi getu til að leysa mál eins og þetta og geti jafnframt ráðið í dulkóðuð skilaboð eins og í WhatsApp,“ sagði Rudd.  

Jeremy Cor­byn, formaður Verka­manna­flokks­ins, sagði að það þyrfti að vera jafnvægi á milli þess sem fólk ætti „rétt á að vita“ og „réttar til einkalífs“.

Í umræddu snjallforriti getur einungis sá sem ætlað er að lesa skilaboðin lesið þau. Þetta þýðir að enginn annar getur lesið þau og þar með talið lögreglan.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert