Hræðilegur missir fyrir foreldrið

AFP

Það vakti töluverða athygli í vikunni þegar faðir Andreas Lubitz, flugmannsins sem er sagður ábyrgur fyrir því þegar farþegaþota Germanwings hrapaði í Ölpunum í mars 2015, hélt blaðamannafund og lýsti því yfir að sonur hans hefði ekki viljandi grandað vélinni. 

Günter Lubitz hélt því fram að sonur hans væri saklaus þrátt fyrir að þýskir saksóknarar greindu frá niðurstöðum sínum í janúar þess efnis að flugmaðurinn hafi verið þunglyndur og viljandi brotlent vélinni.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem foreldrar Lubitz reita aðstandendur fórnarlamba hörmunganna í Ölpunum í mars 2015 til reiði en á ársafmæli brotlendingarinnar birtu þau auglýsingu í blaði þar sem sonar þeirra var minnst. Samhliða hjartnæmum skilaboðum var ljósmynd af Andreasi brosandi en hvergi minnst á fórnarlömbin 149.

En hvernig geta foreldrar fjöldamorðingja sætt sig við gjörðir barna sinna? BBC hefur tekið saman ummæli og viðbrögð foreldra þekktra fjöldamorðingja.

Günter Lubitz, faðir Andreas Lubitz, hefur ítrekað haldið fram sakleysi …
Günter Lubitz, faðir Andreas Lubitz, hefur ítrekað haldið fram sakleysi sonar síns. AFP

Foreldrum oft kennt strax um

Þegar fjöldamorð á sér stað skapast oft umræða í fjölmiðlum um uppeldi árásarmannsins, hvernig hann varð eins og hann varð.

„Það er tilhneiging til þess að kenna foreldrunum strax um,“ segir Andrew Solomon, prófessor í klínískri sálfræði við Columbia-háskólann í New York, sem skrifaði bók um málið.

„Ég komst að  þeirri niðurstöðu að foreldrarnir eru yfirleitt gott fólk sem er í jafnmiklu áfalli og hver annar. Þetta er hræðilegt áfall og hræðilegur missir fyrir foreldrið, sem missir ekki bara barnið sitt, þótt það hafi gert skelfilega hluti, heldur einnig ímynd barnsins,“ segir Solomon. „Þau geta ekki séð barnið í sama ljósi og áður.“

Adam Lanza drap 20 börn og 6 fullorðna í árásinni …
Adam Lanza drap 20 börn og 6 fullorðna í árásinni í Sandy Hook árið 2012. AFP

Ekki litið á móðurina sem fórnarlamb

Solomon bendir á sem dæmi hvernig farið var með minningu móður Adam Lanza en hann myrti 20 börn og 6 starfsmenn í Sandy Hook-grunnskólanum í Connecticut árið 2012. En áður en hann gerði það skaut hann móður sína, Nancy Lanza, til bana á heimili þeirra.

Þrátt fyrir það var Nancy Lanza ekki nefnd á nafn í ræðu sem þáverandi Bandaríkjaforseti Barack Obama hélt til minningar umfórnarlömbin. Þá var hún tekin út af lista yfir fórnarlömb árásarinnar í formlegri skýrslu.

Sumir litu svo á að Nancy Lanza, sem var bæði byssuáhugakona og sögð ekki hafa leitað hjálpar fyrir son sinn sem glímdi við andleg veikindi, væri samsek fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir árásina. Eftir árásina skapaðist umræða um þetta viðhorf og saknæmi foreldra. Ein móðir birti bloggfærsluna „I am Adam Lanza‘s mother“ eða „Ég er móðir Adam Lanza“ þar sem hún skrifaði um tengingu sína við málið og erfiðleika sína við að útvega syni sínum með andleg veikindi hjálp.

Peter Lanza, faðir Adam Lanza, sagði Solomon í viðtali að sonur hans hafi ekki verið opinn fyrir því að fá hjálp við veikindum sínum. Hann telur líkur á að einhverfa Adam Lanza hafi náð að fela einkenni geðklofa en ítrekaði að þeir læknar sem sonur hans hitti hefðu aldrei getað séð fyrir hvað hann myndi gera.

„Ég er í mikilli vörn með nafnið mitt. Ég er ekki einu sinni hrifinn af því að segja það. Ég íhugaði að breyta því en fannst með því ég vera að fjarlægja mig frá málinu.“

Adam Lanza var aðeins tvítugur að aldri þegar hann framdi …
Adam Lanza var aðeins tvítugur að aldri þegar hann framdi voðaverkið.

Faðir Breiviks íhugaði sjálfsvíg

Norðmaðurinn Jens Breivik, faðir Anders Breivik sem myrti 77 manns í Noregi í júlí 2011, viðurkenndi í samtali við The Guardian að fyrstu vikurnar hafi hann alvarlega íhugað að fremja sjálfsvíg.

Jens Breivik, sem býr í Frakklandi, sagðist hafa losað sig við öll sönnunargögn um son sinn og að hann geti ekki ímyndað sér að fara aftur til Noregs vegna þeirra hugmynda að hann sé samsekur.

Eftir árásina í Nice síðasta sumar, þar sem 86 manns létu lífið, ræddi faðir árásarmannsins við BBC. Þar sagði hann að fjölskyldan hefði sóst eftir stuðningi vegna andlegra veikinda sonar hans.

Norski fjöldamorðinginn Anders Breivik. Faðir hans íhugaði alvarlega að fremja …
Norski fjöldamorðinginn Anders Breivik. Faðir hans íhugaði alvarlega að fremja sjálfsmorð fyrstu vikurnar eftir voðaverkin í Ósló og Útey í júlí 2011. AFP

„Allt önnur manneskja en sú sem ég þekkti“

En í samantekt BBC er bent á að í mörgum tilfellum eru engar viðvörunarbjöllur og að árásirnar koma foreldrum árásarmannanna alveg jafnmikið á óvart og öðrum.

Sue Klebold, móðir annars árásarmannsins í Columbine-skotárásinni í Coloradio árið 1999, hefur talað opinskátt síðustu ár um gjörðir sonar hennar. Sonur Klebold og vinur hans drápu 12 samnemendur sína og einn kennara þegar þeir hófu skothríð í skólanum sínum. Árásin var skipulögð í þaula og voru drengirnir ekki aðeins vopnaðir skotvopnum heldur einnig sprengjum. 

Fyrri frétt mbl.is: Höfðu skipu­lagt árás­ina í Col­umb­ine-skól­an­um í eitt ár

Klebold hefur m.a. talað um gjörðir sonar síns í Ted-fyrirlestri og sagði hún það hafa tekið sig mörg ár að sætta sig við dánargjöf sonar síns. „Grimmdin sem einkenndi lífslok hans sýndu mér að hann var allt önnur manneskja en sú sem ég þekkti.“

Sonur hennar, Dylan Klebold, og hinn árásarmaðurinn, Eric Harris, frömdu sjálfsvíg eftir árásina.

Í samtali við Solomon sagði Klebold að hún og eiginmaður hennar hefðu lengi trúað því að Dylan hafi verið „fenginn út í eitthvað sem hann vildi ekki gera“ og það var ekki fyrr en upptökur sem sonur þeirra bjó til fyrir árásina skutu upp kollinum sem þau áttuðu sig á sannleikanum.

„Við getum ekki vitað eða stjórnað öllu því sem ástvinir okkar hugsa eða finnst,“ sagði Klebold. „Við þurfum að læra að fyrirgefa okkur fyrir að vita ekki eða fyrir að spyrja ekki réttu spurninganna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert