Múslimar í London safna milljónum

Blómvendir við Westminster-brúna þar sem voðaverkið var framið.
Blómvendir við Westminster-brúna þar sem voðaverkið var framið. AFP

Eftir hryðjuverkaárásina í Westminster í síðustu viku hóf Samfélag múslima í London söfnun fyrir fjölskyldur fórnarlambanna. Um er að ræða hópsöfnun undir yfirskriftinni Sameinaðir múslimar fyrir London. Þar var stefnt að því að safna 10 þúsund pundum, eða tæpum 1,4 milljónum króna. Það takmark náðist á innan við 24 klukkustundum.

Núna hefur verið ákveðið að reyna að safna 10 þúsund pundum til viðbótar, að því er kemur fram á vefsíðu Globalcitizen. 

Khalid Masood ók bíl á gangandi vegfarendur á Westminster-brúnni í London áður en hann klessti á grindverk fyrir utan breska þingið. Þar fyrir utan stakk hann lögreglumanninn Keith Palmer til bana, áður en hann var sjálfur skotinn til bana.

Samtals létust fimm í árásinni og tugir manna særðust. Sjö þeirra eru alvarlega slasaðir.

Masood var múslimi en ekki er vitað hvað honum gekk til með árásinni. Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð á henni.

„Breska múslimasamfélagið stendur með samfélaginu meðan á þessum erfiðu tímum stendur og vill sýna aukinn stuðning með því að safna peningum handa fjölskyldu Keith Palmer, öðrum fórnarlömbum og fjölskyldum þeirra,“ sagði í yfirlýsingu frá Samfélagi múslima í London.

„Þrátt fyrir að engin upphæð geti endurheimt líf þeirra sem voru hrifsaðir í burtu eða linað sársauka fórnarlambanna og fjölskyldna þeirra, vonumst við til að létta byrðina á einhvern hátt.“

Ótti gagnvart múslimum

Borið hefur á ótta og hatri gagnvart múslimum eftir hryðjuverkaárásir á borð við árásina í Westminster.

Mohammed Shafiq, framkvæmdastjóri Ramadan-stofnunarinnar, vill koma í veg fyrir að það gerðist.

„Því miður, eftir hryðjuverk á borð við þetta hafa saklausir múslimar og moskurnar okkar verið skotspónn múslimahaturs,“ sagði Shafiq í yfirlýsingu. „Við þurfum að vera á varðbergi og sjá til þess að enginn geti sundrað samfélagi okkar.“

Fjölmargir hafa minnst fórnarlambanna.
Fjölmargir hafa minnst fórnarlambanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert