Sjálfkeyrandi Uber lenti í árekstri

Uber hefur boðið upp á þjónustu sjálfkeyrandi bíla í Tempe, …
Uber hefur boðið upp á þjónustu sjálfkeyrandi bíla í Tempe, Pittsburg og San Fransisco. AFP

Uber hefur gert hlé á notkun sjálfkeyrandi bíla eftir að sjálfkeyrandi bíll á vegum fyrirtækisins lenti í árekstri í Arizona á föstudaginn. Enginn slasaðist alvarlega en málið er í rannsókn.

Atvikið átti sér stað í borginni Tempe þegar bíll að gerðinni Volvo var í sjálfkeyrandi stillingu. „Við erum að rannsaka málið og getum staðfest að það var enginn farþegi aftur í bílnum,“ sagði í tilkynningu Uber. Áreksturinn átti sér stað þegar annar bíll hunsaði biðskyldu við vinstri beygju að sögn lögreglu.

„Bílarnir skullu saman, sem varð til þess að sjálfkeyrandi bíllinn fór á hliðina. Enginn slasaðist alvarlega,“ sagði í yfirlýsingu lögreglu.

Sjálfkeyrandi bílar Uber eru alltaf með ökumann sem getur tekið yfir stjórnina hvenær sem er. Að sögn lögreglu liggur ekki fyrir hvort ökumaður Uber hafi verið við stjórnvölinn þegar áreksturinn átti sér stað.

Uber hefur upp á síðkastið boðið upp á þjónustu sjálfkeyrandi bíla í Arizona, Pittsburgh og San Francisco en henni hefur nú verið hætt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert