Fengu fangelsisdóm fyrir að svelta þernuna

Skyndinúðlur og brauð var eini maturinn sem konan fékk í …
Skyndinúðlur og brauð var eini maturinn sem konan fékk í 15 mánaða vist sinni hjá hjónunum. AFP

Dómstóll í Singapore hefur dæmt hjón nokkur til fangelsisvistar fyrir að svelta filíppínska húshjálp sína. Málið hefur vakið mikla hneyksli í Singapore, en konan léttist um 20 kg eða um 40% af líkamsþunga sínum í vistinni hjá hjónunum sem aðeins gáfu henni brauð og skyndinúðlur að borða.

Húshjálpin Thelma Oyasan Gawidan var svelt yfir 15 mánaða tímabil  með þeim afleiðingum að hún léttist úr 49 kg niður í 29 kg. Gawidan greindi réttinum frá því að hún hefði aðeins fengið að borða tvisvar á dag og þá lítið í einu og að beiðni hennar um meiri mat var hafnað. Þá var hún látin sofa í geymslunni og var ekki leyft að fara í sturtu nema einu sinni eða tvisvar í viku.

Gawidan greindi réttinum einnig frá því að hún hefði ekki geta leitað sér aðstoðar fyrr þar sem vinnuveitendur hennar gerðu bæði síma hennar og vegabréf upptækt.

Hún flúði loks í apríl 2014 og leitaði aðstoðar hjá stuðningshóp farandverkafólks, en algengt er að Singaporebúar ráði sér húshjálp frá nágrannaríkjunum og tilfelli misnotkunar eru nokkuð algeng að sögn fréttavefjar BBC.

Hjónin Lim Choon Hong og Chong Sui Foon játuðu sig seka, en sögðu Gawidan hafa sætt sömu meðferð og þau sjálf. Þau borðuðu sjaldan og færu sjaldan í bað vegna áráttuhegðunar Chong í tengslum við mat og þrif á heimilinu. Geðlæknar staðfestu að hún þjáist af áráttuhegðun og lystarstoli  

Saksóknari benti engu að síður á að fjölskyldan hefði borðað betri mat og í meira magni en húshjálpin og fór fram á eins árs fangelsisdóm yfir hjúunum. Dómari dæmdi Lim til þriggja vikna fangelsisdvalar og Chong fékk þriggja mánaða dóm, auk þess sem þau voru sektuð um 10.000 Singapore dollara, eða andvirði 790.000 kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert