Gefa 7000 ungmennum ókeypis Interrail ferð

Farþegar bíða á Gare du Nord lestarstöðinni í París. Allt …
Farþegar bíða á Gare du Nord lestarstöðinni í París. Allt að 7000 ungmenni eiga nú tækifæri á að heimsækja annað Evrópuland með InterRail án þess að greiða fyrir miðann. AFP

Leiðtogaráð Evrópusambandsins tilkynnti í dag að allt að 7.000 námsmönnum standi til boða að fá ókeypis miða fyrir InterRail ferðalag. Evrópuþingið hafði áður hvatt til þess að allir 18 ára íbúar sambandsins fengju afhentan ókeypis InterRail lestarmiða.

Sagði leiðtogaráðið 2,5 milljónir evra, eða um 300 milljónir króna, hafa verið eyrnamerktar  verkefninu sem muni fyrsta kastið gera 5.000 ungmennum kleift að heimsækja annað Evrópuríki.  Ekki hefði hins vegar verið unnt að verða við beiðni Evrópuþingsins, þar sem kostnaðurinn við að gefa öllum 18 ára ungmennum InterRail lestarmiða væri á bilinu 1,2-1,6 milljarðar evra og slíkt fjármagn væri ekki á lausu í augnablikinu.

Eru lestarmiðarnir gefnir til að minnast þess að 30 ár eru nú frá því að Erasmus áætlunin var fyrst virkjuð, en hún gerir háskólanemum kleift að taka önn í skiptinámi utan heimalandsins.

Opið verður fyrir umsóknir til 30. júní að því er Reuters fréttastofan greinir frá og verður ferðin að vera farin á tímabilinu fyrir árslok 2018 og ber umsækjendum að velja umhverfisvænsta ferðamátann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert