May undirritaði úrsögnina úr ESB

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, undirritar bréfið í dag.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, undirritar bréfið í dag. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, undirritaði í dag bréf sem sent verður á morgun til Evrópusambandsins og inniheldur formlega tilkynningu um úrsögn Breta úr sambandinu. Meirihluti breskra kjósenda samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu síðasta sumar að ganga úr Evrópusambandinu og breska þingið lagði blessun sína yfir hana fyrr í þessum mánuði.

May undirritaði bréfið með breska fánann sér við hlið og málverk af Robert Walpole, fyrsta forsætisráðherra Bretlands, á veggnum fyrir aftan sig. Með bréfinu verður grein 50 í Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins virkjuð sem kveður á um með hvaða hætti ríki geti sagt skilið við sambandið. Viðræður um úrsögnina munu síðan hefjast í kjölfar þess.

Brexit.
Brexit. AFP

Fram kemur í frétt AFP að Tim Barrow, sendiherra Bretlands gagnvart Evrópusambandinu, muni afhenda Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs sambandsins, bréfið á morgun klukkan 11:30 að íslenskum tíma. Samkvæmt greininni hefst þá tveggja ára tímarammi sem Evrópusambandið og bresk stjórnvöld hafa til þess að semja um forsendur útgöngunnar.

May ræddi í kvöld við Tusk í síma sem og Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, samkvæmt fréttinni. Haft er eftir breska forsætisráðuneytinu að þau hefðu öll tekið undir það að allra hagur væri að sambandið stæði traustum fótum og að Bretland yrði sem fyrr náinn bandamaður þess.

Bretland gerðist aðili að forvera Evrópusambandsins, Efnahagsbandalagi Evrópu, í byrjun árs 1973 og hefur því verið innan sambandsins og forvera þess í 44 ár.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert