Njósnuðu um hundruð Tyrkja í Þýskalandi

Tyrkir búsettir í Þýskalandi taka hér þátt í kynningu á …
Tyrkir búsettir í Þýskalandi taka hér þátt í kynningu á stjórnarskrárbreytingum Erdogans í Oberhausen í Vestur Þýskalandi. AFP

Leyniþjónusta Tyrklands njósnaði um hundruð manna í Þýskalandi, sem hún grunar um að tilheyra hreyfingu fólks sem er andsnúið Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta.

Umfang njósnanna varð ljóst eftir að yfirmaður leyniþjónustunnar (MIT) afhenti Bruno Kahl, yfirmanni utanríkisarms þýsku leyniþjónustunnar, lista með nöfnum þeirra sem fylgst var með. Að sögn þýskra fjölmiðla þá innihélt listinn heimilisföng, símanúmer og jafnvel myndir úr eftirlitsferðum

Samband Þýskalands og Tyrklands er nú mjög stirt eftir að þýsk stjórnvöld, líkt og stjórnvöld nokkurra annarra Evrópuríkja, neituðu tyrkneskum ráðherrum um að kynna á fjöldafundum stjórnarskrárbreytingar sem ætlað er að auka völd Erdogan.

Þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung og nokkrir aðrir fjölmiðlar segja Hakan Fidan, yfirmann MIT hafa afhent Kahl lista með nöfnum 300 einstaklinga og 200 samtaka á öryggisráðstefnu í Munchen í febrúar.

Tilgangurinn var að fá þýsk yfirvöld til að aðstoða þau tyrknesku, en afleiðingin var þess í stað sú að fólkið sem nefnt var á listanum, var varað við því að fara til Tyrklands eða að heimsækja tyrknesk sendiráð í Þýskalandi.

Lögregla í Nordrhein-Westfalen sagði þýska ríkissjónvarpinu að listinn væri litinn alvarlegum augum og að hann hefði vakið reiði ráðamanna í landinu.

„Fyrir utan Tyrkland, þá held ég að enginn trúi því að hreyfing Gulens hafi staðið að baki valdaránstilrauninni [sem gerð var í júlí og sem tyrknesk stjórnvöld telja klerkinn Fetulah Gulen bera ábyrgð á], hefur fréttavefur BBC eftir Hans-Georg Maassen, yfirmanni þýsku leyniþjónustunnar.

„Ég þekki að minnsta kosti engan utan Tyrkland sem tyrknesk stjórnvöld hafa náð að sannfæra.“

Nein við einsmanns stjórn, stendur á þessu dreifiriti sem verið …
Nein við einsmanns stjórn, stendur á þessu dreifiriti sem verið var að afhenda í Munchen fyrir utan einn af utankjörfundarstöðum vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar. AFP

Boris Pistorius, innanríkisráðherra í Neðra Saxlandi, gekk jafnvel enn lengra. „Við verðum að segja alveg greinilega að þetta felur í sér ótta á samsæri sem flokka má ofsóknaræði,“ sagði hann.

Um 1,4 milljón Tyrkja sem búsettir eru í Þýskalandi og fimm öðrum Evrópuríkjum hafa kosningarétt í heimalandi sínu og geta nú kosið utankjörfundar vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingarnar sem haldin verður í apríl. Opnað var á utankjörfundaratkvæðagreiðslu í gær.

Ríkissaksóknari í Sviss greindi frá því í síðustu viku að hann væri nú að kynna sér ásakanir þess efnis að stjórn Erdogans hefði látið njósna um Tyrki sem hafa verið gagnrýnir í garð forsetans, á fyrirlestri í Zurich.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert