Reyndu að selja barnið á netinu

Lögreglumaður fór til fundar við parið og tók við barninu.
Lögreglumaður fór til fundar við parið og tók við barninu. AFP

Par í Tennessee í Bandaríkjunum er sakað um að hafa reynt að selja fimm mánaða barn sitt á smáauglýsingasíðunni Craigslist fyrir 3.000 dollara eða um 350 þúsund krónur.

Í frétt BBC um málið segir að parið, kona á fertugsaldri og karl á þrítugsaldri, hafi verið handtekin eftir að fyrir þeim var setið er þau ætluðu að afhenta barnið. Lögreglan leiddi þau í gildru og var það lögreglumaður sem kom til fundar við þau.

Parið hefur verið ákært og kom fyrir dómara í gær. 

Lögreglan í Greene-sýslu segist hafa fengið ábendingu um auglýsinguna. Í kjölfarið hafi lögreglumaður sett sig í samband við parið og mælt sér mót við það við verslun þar sem afhenta átti barnið gegn gjaldi.

„Myndir þú trúa þessu? Við keyptum barn. Þetta fær hjarta manns til að taka kipp,“ sagði lögreglumaðurinn sem sá um málið í samtali við dagblaðið Greenville Sun.

Barnið er nú í umsjá barnaverndaryfirvalda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert